Íslenska óperan sökuð um „yellow face“

Hér má sjá hluta af leikmyndinni sem gagnrýnd er.
Hér má sjá hluta af leikmyndinni sem gagnrýnd er.

Uppsetning Íslensku óperunnar á verkinu Madama Butterfly eftir Giacomo Puccini, hefur fengið töluverða gagnrýni síðustu daga og aðstandendur verksins sakaðir um „yellow face“. En þá er notaður farði og gervi í þeim tilgangi gera hvítt fólk „asískara“ í útliti, oft á ýktan hátt.

Einnig hefur verið bent á að tákn sem prýða leikmyndina séu í raun ekki japönsk, heldur kínversk.

Það var fiðluleikarinn Laura Liu sem vakti fyrst athygli á málinu á Facebook-síðu sinni, en hún er af kínverskum og bandarískum uppruna.

„Erum við að taka aftur upp „yellow face“ á Íslandi, spurði hún og benti á að þegar fólk notaði kynþátt annarra sem búning þá væri það kallað afmennskun. Birti hún einnig nokkrar myndir af leikurum sýningarinnar og hvatti Íslensku óperuna til að gera betur.

Leikararnir ekki gerðir „japanskari“ í útliti

Fjölmargir skrifa athugasemdir við færslu Lauru, þar á meðal hin japanska Yuka Ogura, sem hefur verið búsett hér á landi í fjölda ára. Sagðist hún hafa tekið eftir að táknin væru kínversk en hún vissi ekki að þau hefðu átt að vera japönsk. Sagði hún myndirnar frá sýningunni gefa til kynna að aðstandendur hennar hefðu ekki unnið heimavinnuna sína sérstaklega vel. „Þetta lítur út fyrir að vera gamanleikur sem á sér stað í hóruhúsi.“

Michiel Dijkema, leikstjóri og leikmyndahönnuður verksins, tjáir sig einnig við færsluna.

Hann segir enga tilraun hafa verið gerða til að breyta húðlit eða lögun augna leikaranna í þeim tilgangi að gera þá „japanskari“ í útliti. Farðinn geri í raun söngvarana hvítari í framan en Íslendinga.

Auðvitað sé heildarútkoman japönsk en farðinn sé ekki hluti af þeirri sögulegu og andstyggilegu hefð sem „yellow face“ sé.

Hann viðurkennir að „yellow face“ sé viðkvæmt málefni og eitthvað sem hann hafi rætt við búningahönnuð og stjórnanda Íslensku óperunnar.

Hvað táknin varðar segir hann um að ræða Kanji tákn sem líkist kínverskum táknum, en þau hafi öll átt að vera japönsk og merkt sem slík þegar hann sótti fyrirmyndirnar. Hafi kínverskt tákn slæðst með, þá sé það auðvitað óheppilegt en það hafi ekki verið ætlunin.

Einhverjir benda honum hins vegar á að sé tákunum raðað saman af handahófi þá sé ekki lengur um að ræða japönsku. Þá eigi „yellow face“ ekki bara um farða heldur líka gervi og umgjörð.

Margir sárir og móðgaðir 

Daniel Byung-Chan Roh, uppistandari og kennari af kóreskum og bandarískum uppruna, sem býr hér á landi svarar leikstjóranum í löngu máli við færslu Lauru en hann ritaði einnig opið bréf til Íslensku óperunnar sem birtist á Vísi í dag.

Segir hann að í uppsetningunni birtist hættulegar rasískar staðalímyndir, en Óperan hafi tækifæri til að breyta því. Vísar hann til þess að leikstjórinn hafi brugðist við með því að réttlæta gervin og leikmyndina, en engin viðleitni hafi verið til að gera breytingar.

Hvatti hann Íslensku óperuna til að biðjast opinberlega afsökunar, enda hefðu margir verið særðir og móðgaðir. Og jafnframt gera nauðsynlegar breytingar á sýningunni.

Sagði hann það hættulegt að nota „yellow face“ í svo stórri sýningu sem væri fjármögnuð af ríkinu. Rasismi væri raunverulegur og birtist á hverjum degi á Íslandi. Fólk af asískum uppruna hér á landi þyrfti ekki að búa við það að aðrir geifluðu sig í því skyni að grínast með skásett augu.

Daniel hefur boðað til mótmæla við Hörpu á laugardag vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert