Segir Ragnar Þór á móti kvennavettvangi ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson beitti sér gegn því í miðstjórn ASÍ að stofnaður yrði sérstakur kvennavettvangur innan Alþýðusambandsins, segir. Elva Hrönn Hjartardóttir, sem býður sig fram gegn honum í formannskjöri VR. Hún segir það eitt „rautt flagg“ í sínum huga.

Þetta kemur fram í viðtali Dagmála við Elvu Hrönn, sem birt er í dag. Hún segir að Ragnar Þór hafi einn miðstjórnarmanna ASÍ verið á móti stofnun þess kvennavettvangs, en með honum er ætlað að vega á móti „ákveðinni karllægni“ sem lengi hafi einkennt verkalýðshreyfinguna. „Formaður VR beitti sér gegn því að þessi kvennavettvangur yrði stofnaður.“ 

Elva segir að sig ói við þeirri þróun, sem vart hafi orðið í verkalýðshreyfingunni upp á síðkastið. Orðbragðið og málflutningurinn hafi hjá sumum forystumönnum verið með því móti að fólki finnist verkalýðshreyfingin vera komin í ógöngur og hún kunni að missa afl sitt og sess fyrir vikið. 

Farið er vítt yfir sviðið í viðtali Dagmála við Elvu Hrönn, sem birt var í dag og sjá má í heild sinni hér. Dagmál er streymi Morgunblaðsins og er opið öllum áskrifendum.

Formannskosning í VR hófst í dag og stendur til næsta miðvikudags. Hún fer fram á vef félagsins, vr.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert