„Raunverð leigu u.þ.b. 30% hærri en mæld leiga“

Guðmundur vill að sett verði á leiguþak þar sem viðmiðunarverð …
Guðmundur vill að sett verði á leiguþak þar sem viðmiðunarverð fyrir húsaleigu taki mið af raunkostnaði leigusala og réttu hlutfalli leigu og launakjara í landinu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Guðmund­ur Hrafn Arn­gríms­son, formaður Leigj­enda­sam­tak­anna, segir að umræðan um að leiguverð eigi inni hækkanir sé fáranleg. Hann segir raunleigu vera u.þ.b. 30% hærri en mælda leigu og að engin innistæða sé fyrir enn frekari hækkun leiguverðs. 

Upplýsingar um húsaleigu sem liggja til grundvallar vísitölu leiguverðs koma úr gagnagrunni þinglýstra leigusamninga. Guðmundur segir minnihluta leigusamninga vera þinglýsta þar sem helsti hvatinn fyrir þinglýsingu leigusamninga sé til þess að fá húsaleigubætur.

„Það segir sig sjálft að þegar fólk er farið að leigja fyrir 300-400 þúsund þá þurfa tekjurnar að vera það háar að fólk fær ekki húsaleigubætur. Þar af leiðandi er ekki hvati til þess að þinglýsa þeim leigusamningum sem þýðir að vísitala húsaleigu er alltaf byggð á minnihluta samninga og að stærstum hluta samningum sem eru með lægri húsaleigu auk félagslegra íbúða,“ segir Guðmundur.

Hann telur tilkomu leiguskrár ekki bæta mikið úr skák þar sem þeir sem leigi út eina íbúð þurfi ekki að skrá hana. Það sé einmitt stærsti hluti leigusala og mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem heldur utan um leiguskrá ekki ná fram upplýsingum sem endurspegla upplýsingar um leigumarkaðinn.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna. Ljósmynd/Aðsend

Skakkt viðmið á fjármagnskostnaði

Guðmundur segir 95% leigumarkaðarins í dag hafa orðið til fyrir kórónuveirufaraldurinn og að stærsti hluti markaðarins beri ekki þau lánakjör sem stöðugt sé miðað við. Það sé ekki réttlætanlegt að miða leigu við fjármagnskostnað leigusala því ef svo sé gert ættu leigjendur að fá hlut í hækkun fasteignar.

„Það er ekki hægt að réttlæta fjárfestingar- og fjármagnskostnað leigusala út frá þeim 3-5% sem hafa bæst við markaðinn síðasta árið. Leigjendur eru ekki þátttakendur í fjárhagsskuldbindingum leigusala og á því ekki að vera hægt að framselja þær beint til leigjenda í gegnum hækkun leiguverðs. Sú umræða að leigjendur séu þátttakendur í fjárhagsskuldbindingum leigusala er algjörlega ótæk og ef svo væri ætti leigjandinn að gera tilkall gróðans,“ segir Guðmundur. 

Vill leggja niður húsnæðisbótakerfið

Guðmundur telur lykilatriði að leggja niður núverandi húsnæðisbótakerfi og fá því breytt. Setja þurfi á leiguþak þar sem viðmiðunarverð fyrir húsaleigu taki mið af raunkostnaði leigusala og réttu hlutfalli leigu og launakjara í landinu.

„Með því að breyta kerfinu væri hægt að tryggja að þeir leigusalar sem ekki geta borið og rekið leigueiningar sínar undir þeim kringumstæðum geti sótt um leigubætur. Þá mun það koma í ljós að það eru ekki margir leigusalar sem geta ekki borið leigueiningar sínar undir eðlilegum markaðskringumstæðum,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert