Mæðradauði fátíðari hér en víðast hvar

Kona með nýfætt barn.
Kona með nýfætt barn.

„Mæðradauði á Íslandi er með því minnsta sem þekkist,“ segir Reynir Tómas Geirsson, prófessor og yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans. Grein um rannsókn hans, Thors Aspelund tölfræðings og Heru Birgisdóttur læknis á mæðradauða á Íslandi á árunum 1976 til 2015 er birt í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

„Mæðradauði er fátíður og alvarlegur atburður, – mælikvarði á umgjörð þungunar og barneigna. Tilgangur rannsóknarinnar var að finna og flokka tilvik á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum og skoða breytingar dánarhlutfalla á 40 ára tímabili,“ segir í greininni.

48 mæður létust í þungun eða ári síðar

Alls létust 1.600 konur á aldrinum 15 til 49 ára á tímabilinu, þar af 48 í þungun eða á árinu eftir hana. Fæðingar voru 172.369. Samkvæmt þrengri skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar flokkast 14 þessara tilvika undir mæðradauða. Beintengd dauðsföll voru 6, óbeint tengd 20 og ótengd 22 (slysfarir, sjúkdómar). Orsakir beintengdra dauðsfalla voru alvarleg meðgöngueitrun, lungnablóðrek og fylgjuvefskrabbamein. Óbeint tengd dauðsföll urðu vegna undirliggjandi sjúkdóma, svo sem krabbameins, sykursýki, heila/hjartasjúkdóma og sjálfsvíga. Áætlað hefur verið að mæðradauði sé svipaður á Norðurlöndunum

„Engin kona lést í tengslum við utanlegsþungun, asablæðingu eða svæfingu og deyfingu,“ segir Reynir Tómas. Hann telur það til marks um góðan árangur íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Árvekni þurfi þó sem fyrr vegna kvenna í áhættuhópum og gagnvart alvarlegum fylgikvillum þungunar og barneigna. Betur megi gera á ýmsum sviðum, m.a. með tilliti til geðrænna orsaka mæðradauða, þ.e. sjálfsvíga. Í því efni sé hægt að styðjast við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »