Frávísun í hryðjuverkamáli líklega ekki kærð

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari hjá embætti héraðssak­sókn­ara, segist ekki eiga von á því að frávísun Landsréttar í hryðjuverkamálinu verði kærð til Hæstaréttar.

Lands­rétt­ur klofnaði í af­stöðu sinni þegar hann staðfesti úr­sk­urð héraðsdóms um að vísa frá hryðju­verka­mál­inu svo­kallaða. Var tekið fram að miklir ágallar væru á til­grein­ingu hinn­ar ætluðu refsi­verðu hátt­semi þeirra Sindra Snæs Birg­is­son­ar og Ísi­dórs Nathans­sonar.

„Það sem við gerum núna er að skoða þessa niðurstöðu og við metum næstu skref,“ segir Karl Ingi í samtali við mbl.is.

„Það eru nefndir til sögunnar ákveðnir gallar þar sem er talið að ákæran sé ekki nægilega skýr. Það er það sem við ætlum að skoða nánar.“

Hver eru næstu skref þegar búið er að skoða úrskurðinn?

„Það er hvort að við látum staðar numið eða hvort verði gefin út ný ákæra,“ segir Karl Ingi.

Klofningur hafi enga sérstaka merkingu

Einn dóm­ari af þrem­ur í Lands­rétti skilaði sér­at­kvæði og vildi að frá­vís­unar­úrsk­urður héraðsdóms yrði felld­ur úr gildi.

Karl Ingi sagðist ekki túlka það á neinn sérstakan hátt, þegar hann var spurður um klofning dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert