Gagngerar breytingar verði gerðar á Jöfnunarsjóði

Breiðdalsvík í Fjarðabyggð.
Breiðdalsvík í Fjarðabyggð. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Gagngerar breytingar verða gerðar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem miða að því að styrkja jöfnunarhlutverk sjóðsins og mæta miklum samfélagslegum breytingum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu.

Til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda eru drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Þar eru einnig drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins.

Innleitt á fjórum árum

Í skýrslu starfshópsins er lagt til að tekið verði upp nýtt líkan sem leysi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi. Um yrði að ræða gagnsætt líkan sem sameinar fyrrgreind framlög í eitt framlag.

Starfshópurinn var jafnframt sammála um eftirfarandi breytingar á jöfnunarkerfinu:

  1. Nýtt jöfnunarframlag. Lagt er til að verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
    Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings.
    Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag.
  2. Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál. Lagt er til að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
  3. Vannýting útsvars dregin frá framlögum. Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.

Starfshópurinn leggur þar til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili til að stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert