„Hljóta að boða til blaðamannafundar“

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs Birgissonar.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs Birgissonar. Ljósmynd/Aðsend

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs Birgissonar, sem ákærður var fyrir brot á hryðjuverkalögum, segir að niðurstaða Landsréttar um að vísa ákærunni frá og staðfesta þar með niðurstöðu héraðsdóms ekki hafa komið á óvart. 

„Ég bjóst alltaf við þessu þar sem úrskurður héraðsdóms var vel samninn og rökréttur. Ég taldi því líkurnar alltaf vera meiri á því að Landsréttur myndi staðfesta þetta,“ segir Sveinn Andri. 

Hann gerir ráð fyrir því að hryðjuverkaþætti málsins sé lokið með endanlegum fullnaðarsigri. „Auðvitað er það tæknilega hægt fyrir ákæruvaldið að gefa út nýja ákæru þar sem þeir ná utan um þetta en ég sé ekki hvernig það er hægt,“ segir Sveinn Andri.

„Loðnari en bakið á górillu“ 

Hann segir að það hafi strax verið ljóst í sínum huga að ákæran væri óskýr. „Ég sá það strax að hún var jafn loðin og bakið á górillu,“ segir Sveinn Andri.

Hann telur að ákæruvaldið þurfi að hugsa sinn gang vegna þessarar niðurstöðu. „Þeir hljóta nú að boða til blaðamannafundar," segir Sveinn Andri og vísar þar með til blaðamannafundar sem ríkislögreglustjóri boðaði til þegar málið var kynnt. 

Hann segir boltann hjá ákæruvaldinu varðandi aðra liði ákærunnar.  „En engu að síður lít ég á þetta sem fullnaðarsigur,“ segir Sveinn Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert