Landsréttur staðfestir frávísun hryðjuverkamáls

Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi. Annar sakborningurinn í málinu, mætir …
Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi. Annar sakborningurinn í málinu, mætir í dómsal ásamt verjanda sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur klofnaði í afstöðu sinni þegar hann staðfesti úrskurð héraðsdóms um að vísa frá hryðjuverkamálinu svokallaða. Er það gert í ljósi þess að miklir ágallar eru á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi þeirra Sindra Snæs Birgissonar og Ísidóri Nathanssyni.

Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar sem hefur ekki enn verið birtur á vefsíðu dómstólsins.

Einn dómari af þremur í Landsrétti skilaði sératkvæði og vildi að frávísunarúrskurður héraðsdóms yrði felldur úr gildi.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 9. febrúar var tveimur liðum ákærunnar gegn Sindra Snæ og Ísidóri vísað frá. Er í þeim Sindra gefin að sök tilraun til hryðjuverks og Ísidóri gefin að sök hlutdeild í tilraunarbroti með Sindra.

Snertir þessi frávísun því ekki seinni liði ákærunnar sem snúast að vopnalagabroti og stórfelldum vopnalagabrotum, ásamt fíkniefnabroti.

Ákæran þurfi að vera skýr

Í áliti meirihluta dómsins, sem skipaður var Landsréttardómurunum Kristni Halldórssyni og Ragnheiði Bragadóttur, er vísað til laga um meðferð sakamála þar sem tiltekið er að hver sú háttsemi sem ákært er fyrir skuli vera svo glögg sem vera má í ákæru. Einnig að koma eigi fram hvar og hvenær brotið er talið framið. Segir í úrskurði meirihlutans að skýra beri þetta þannig að lýsing á háttseminni verði að vera svo góð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverðu háttsemi hann er sakaður um og hvaða refsilagaákvæði hann er talinn hafa brotið af sér.

Ákæruefnin

Vísað er til þess að í I. kafla ákærunnar, sem beinist að Sindra Snæ, sé honum gefið að sök tilraun til hryðjuverka með því að hafa ákveðið að valda ótilgreindum hópi fólks, á ótilgreindum stað, bana eða stórfelldu líkamstjóni eða stefna lífi þess í hættu með stórfelldum eignaspjöllum og sýnt þann ásetning ótvírætt í orði á tímabilinu maí til september í fyrra. Meðal annars vísaði ákæruvaldið til orðfæris og yfirlýsinga á dulkóðaða samskiptaforritinu Signal. Þá hafi hann einnig útbúið, framleitt og aflað sér skotvopna, íhluta í skotvopn og skotfæra. Þannig keypti hann m.a. árásarriffla af gerðinni AK-47 og AR-15 sem hafi verið breytt í hálfsjálfvirkan. Einnig hafi hann orðið sér úti um efni og upplýsingar um sprengju- og drónasmíði og reynt að verða sér uúti um lögregluskilríki, lögreglufatnað og lögreglubúnað með það fyrir augum að villa um fyrir fólk í tengslum við skotárás.

Þá er vísað til II. kafla ákærunnar, sem er gegn Ísidóri, um að hann hafi í orði og verki átt hlutdeild að brotum Sindra með því að hafa sent honum hvatningarorð, undirróður og efni og upplýsingar um þekkta hryðjuverkamenn, hugmyndafræði og verknaðaraðferðir þeirra, sem og upplýsingar um sprengju- og drónasmíði o.fl.

Ótilgreindur hópur á ótilgreindum stað í lagi...

Tekið er fram í úrskurði Landsréttar að ekki sé talið að framsetning ákærunnar, þegar komi að því gegn hverjum eða hvenær meint árás ætti að eiga sér stað, valdi frávísun.

...en skorti lýsingu á hvað hafi átt að gera

Hins vegar er tekið fram að ákæran hafi ekki að geyma frekari lýsingu eða afmörkun á því orðfæri og yfirlýsingum Sindra og Ísidórs sem byggt sé á þegar Sindra er gert að hafa ætlað að valda ótilgreindum hópi fólks bana eða stórfelldu líkamstjóni eða stefna lífi þess í hættu eða með stórfelldum eignaspjöllum.

Með þessu sé ekki orðið við ákvæði c- og d-liða 1. mgr. 152. gr. laga um meðferða sakamála nr. 88/2008 um að tilgreina skuli þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök með eins nákvæmum hætti og mögulegt er út frá þeim rannsóknargögnum sem liggja fyrir hverju sinni.

Því segir í úrskurðinum að ákæruvaldinu hafi átt að vera unnt að tilgreina mun skýrar og nákvæmar í ákæru hvaða orðfæri og yfirlýsingar í samskiptum tvímenninganna sýndu að Sindri Snær hefði tekið ákvörðun um hryðjuverk.

Ekki ráðið af ákæru hver refsiverða háttsemin sé

Leiðir þetta af sér að sama eigi við um ákæruliðinn gegn Ísidóri og hlutdeild hans í meintum brotum Sindra Snæs. Segir í dóminum að enga frekari lýsingu eða útlistun sé að finna í ákæru á ætluðum hvatningarorðum og undirróðri Ísidórs.

„Samkvæmt framangreindu eru slíkir ágallar á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi varnaraðila samkvæmt köflum I og II í ákæru að þeir verða ekki taldir geta ráðið af ákærunni einni hver sú refsiverða háttsemi er sem þeim er gefin að sök í málinu. Eru þessir ágallar slíkir að með réttu má telja torvelt fyrir varnaraðila að halda uppi vörnum í málinu,“ segir í úrskurði meirihlutans og er með því úrskurður héraðsdóms um frávísun þeirra kafla málsins sem snúa að hryðjuverkum staðfestur.

Sératkvæði Símonar

Í sératkvæði Landsréttardómarans Símonar Sigvaldasonar kemur fram að hann sé sammála meirihlutanum með að heimilt hafi verið að vísa til þess í ákærunni að ætlað hryðjuverk hafi beinst að ótilgreindum hópi á ótilgreindum stað.

Hins vegar bætir Símon við og segir að horfa þurfi til undirbúningsathafna sem miði að framkvæmd brots, jafnvel þótt það nægi ekki til þess að brot geti fullframist. Í gögnum málsins liggi fyrir upplýsingar um athafnir sem hlutlægt séð megi virða sem undirbúning að framningu hryðjuverks.

Símon gagnrýnir framsetningu ákærunnar varðandi meintan ásetning með orðfærum og yfirlýsingum, en segir það hins vegar ekki valda frávísun. „Ég tel að réttara hefði verið, og í betra samræmi við tíðkanlega ákærusmíð, að fram hefði komið í ákæru í það minnsta eitthvert dæmi um þetta orðfæri eða þessar yfirlýsingar. Ég tel hins vegar að ákæran sé nægjanlega skýr um þessa háttsemi varnaraðila,“ segir í sératkvæði hans.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is