Skellir í lás og selur safnið

Aðalvideoleigan er meðal seinustu myndbandsleigna á Íslandi en hún lokar …
Aðalvideoleigan er meðal seinustu myndbandsleigna á Íslandi en hún lokar nú dyrum sínum um mánaðarmótin. mbl.is/Árni Sæberg

Aðalvideoleigan á Klapparstíg, sem hefur á seinustu árum verið eina myndbandsleigan í fullum rekstri hér á landi, mun hætta starfsemi sinni um mánaðarmótin.

Frá og með deginum í dag verður úrval Aðalvideoleigunnar til sölu en þar hafa verið fleiri en 20.000 spólur og diskar til leigu.

Færsla frá því í gær um lokun Aðalvideoleigunnar.
Færsla frá því í gær um lokun Aðalvideoleigunnar. Skjáskot/Facebook

Frá þessu greidi eigandi myndbandsleigunnar, Reynir Maríuson (einnig þekktur sem Aðal-Reynir), á Facebook-síðu Aðalvideoleigunnar í gær.

Áður voru myndbandsleigurnar í miklu framboði hér á landi en á liðnum árum hafa streymisveitur gjörsamlega umbreytt neysluvenjum okkar hvað kvikmyndir og sjónvarp varðar og nú eru myndbandsleigur nánast framandi sjón að sjá.

Síðasta leigan í fullum rekstri

Samtals hefur Reynir verið eigandi leigunnar í rúm 30 ár en hann seldi leiguna á tímapunkti og keypti hana síðan aftur. Leigan hefur þó verið við klapparstíg í um fjóra áratugi.

„Við erum búin að vera síðasta vídeoleigan í fullum rekstri seinustu tvö eða þrjú ár, alveg síðan Laugarásvídeo lokaði,“ segir Reynir í samtali við mbl.is. „Það eru tvær hillur í Siglufirði og einhverjar aðrar tvær heima hjá einhverjum á Eskifiriði.“ 

Aðal-Reynir Maríuson hefur rekið leiguna í um 30 ár samanlagt.
Aðal-Reynir Maríuson hefur rekið leiguna í um 30 ár samanlagt. mbl.is/Árni Sæberg

Reynir segir það vera mjög leiðinlegt að þurfa að loka. Hann hafði nefnilega haft það markmið að vera síðasta myndbandsleigan á heimskringlunni. „Ég er ekkert að loka því að mig langar til þess.“ 

Faraldurinn stórt strik í reikninginn

Reynir segir að kórónuveirufaraldurinn hafi haft mikil áhrif á rekstur Aðalvideoleigunnar seinustu árin. Fastakúnnar mættu þá sjaldnar og tekjur fóru hríðfallandi.

Allt saft leigunnar verður til sölu á næstu vikum.
Allt saft leigunnar verður til sölu á næstu vikum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég þurfti bara að taka upp úr vasanum til að borga húsaleiguna,“ segir Reynir en hann hefur á seinustu mánuði verið að vinna við annað starf á daginn og mæta síðan eftir vinnu upp í vídeoleigu sem hefur verið opin á milli 18:00 og 23:30.

Hann vill telja að ef ekki hafi verið fyrir faraldurinn hefði hann getað haldið leigunni gangandi um nokkurn tíma til viðbótar.

Því verður allt kvikmyndasafnið til sölu, svo að Reynir geti að nokkru leyti komist frá frá tapi seinustu ára. „Það er ekkert tekið frá.“

Sáttur ef þetta kemur honum í sögubækurnar

Reynir segist vera sáttur við það að leigan hafi haldið út svona lengi, þrátt fyrir það að hún hafi þurft að loka dyrum fyrr en hann vonaðist til. „Ef það er þetta sem kemur mér í Íslandssöguna þá verð ég ekkert ósáttur við það.“

Aðspurður hver hans næstu skref verða þá segist hann ætla að halda áfram að vinna en eins og sagt hefur verið hefur hann starfað við tvö störf þar til nú þegar leigan lokar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert