Þrír skjálftar af stærð 3 og yfir

Jökulsprungurnar marka yfirborð Mýrdalsjökuls þar sem hann skríður fram.
Jökulsprungurnar marka yfirborð Mýrdalsjökuls þar sem hann skríður fram. mbl.is/RAX

Alls hafa 220 skjálftar mælst í Mýrdalsjökli frá áramótum. Þar af hafa þrír skjálftar mælst af stærð 3 eða sterkari.

Þeir riðu allir yfir síðdegis í gær og í gærkvöldi. Stærstur þeirra mældist 3,4 að stærð og varð hann um klukkan hálf fimm síðdegis í gær.

Til samanburðar mældust fjórtán skjálftar á þessu stærðarbili undir jöklinum á síðasta ári. Ellefu þeirra mældust á síðustu þremur mánuðum ársins og var stærsti skjálftinn 3,9 að stærð.

Lífsmörk í eldstöðinni

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, sagði í samtali við Morgunblaðið í nóvember að stærðin skipti ekki meginmáli þegar komi að því að rýna í skjálftana, heldur fjöldinn einna helst.

„Og svo hvernig þeir haga sér með tímanum,“ sagði Páll. Sjálfsagt sé að fylgjast með en skjálftar á þessu svæði séu auðvitað tíðir.

„Þetta eru greinilega lífsmörk í eldstöðinni, það fer ekki á milli mála,“ bætti hann við.

Árin 2011, 1999 og 1955 varð vart við mikinn óróa, sem bendir jafnvel til þess að lítil gos hafi orðið undir jöklinum. Ekki hefur orðið stórt gos í Kötlu, eldstöðinni sem jökullinn hylur undir hettu sinni, frá árinu 1918.

Páll tók fram að ekki væri hægt að segja að eldfjallið sé „komið á tíma“, hvorki hvað stórt né lítið gos varðar.

„Við viljum nú heldur reyna að útrýma þessu orðalagi. Það var uppi þessi trú á tímabili að eldfjöll höguðu sér með reglulegu tímabili, en eldfjöll gera það þó ekki.“

mbl.is