Kaflinn á milli fimm og átta í morgun erfiður

Kapparnir hafa verið að síðan klukkan sjö í gær.
Kapparnir hafa verið að síðan klukkan sjö í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þeir Sigurjón Ernir Sturluson, Halldór Ragnar Guðjónsson og Bergur Vilhjálmsson láta sig ekki muna um það að skila 350 kílómetrum af erfiði í húsnæði Ultraform í Grafarholti í dag, til styrktar Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein.

Félagarnir hafa nú verið að í tæpar 19 klukkustundir en markmiðið er að taka 50 kílómetra á skíðavél, 100 kílómetra á róðravél og 200 kílómetra á hjóli. Gert ráð fyrir því að þeir klári um 18.30 í dag, að sögn Þórunnar Hildu Jónasdóttur, markaðs- og kynningarfulltrúa Krafts.

Erfiður kafli á milli fimm og átta í nótt

„Þeim hefur gengið ljómandi vel. Fólk hefur komið og keypt húfur og boli frá Krafti hér og það hefur myndast mikil stemning í stöðinni. Það er mikil samstaða með þeim,“ segir hún og bætir við að vinir og vandamenn hafi verið duglegir að kíkja við og taka með þeim æfingu. Ágóði af sölu varningsins rennur til Krafts. 

„Kaflinn á milli fimm í nótt og átta í morgun var erfiður en þeir fengu góða gesti yfir nóttina Þeir fengu nudd, mat og drykk. Síðan erum við með góðan lagalista og það er mikil stemning hjá okkur.“

Áheitasöfnun er í fullum gangi, sem og sala á varningi á staðnum. Þá hefur æfingahjól verið sett á uppboð og nemur hæsta boðið 150.000 krónum.

„Söfnunin er opin fram á mánudag. Fólk hefur þannig tækifæri til þess að verðlauna þá fyrir þetta frábæra afrek,“ segir Þórunn í lokin.

Bankaupplýsingar hjá Krafti: kennitala: 571199-3009, bankanúmer: 327-26-112233, Aur: @kraftur 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert