Skerða raforku vegna viðhalds

Háannatími er í loðnuvinnslu en skerðingar á raforkuafhendingu leiða til …
Háannatími er í loðnuvinnslu en skerðingar á raforkuafhendingu leiða til þess að olía er brennd til vinnslunnar mbl.is/Kristinn Magnússon

Skerðingar voru á afhendingu raforku til fiskmjölsverksmiðja frá sunnudegi til hádegis í gær, föstudag, vegna viðhalds í Búðarhálsstöð. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun munu skerðingarnar hefjast á ný frá og með mánudagsmorgni. Viðhaldið í Búðarhálsstöð kemur í kjölfarið á stóru viðhaldsverkefni í Búrfellsstöð sem lauk fyrir mánaðamót, þar sem farið var í yfirferð á einni vélanna. Þegar raforku er ekki til að skipta, brenna verksmiðjurnar olíu til að halda fullum afköstum við bræðslu í loðnuvertíðinni.

Fiskmjölsverksmiðjurnar kaupa ótrygga raforku af framleiðanda, það er Landsvirkjun, sem felur í sér að þær mega búast við skerðingu hvort sem er vegna stöðu í lónum eða skorts á afli. Með þessu fá verksmiðjurnar raforkuna á hagstæðustu kjörum. Töluvert hefur verið um skerðingar á raforku til verksmiðjanna það sem af er ári. Ólíkt vertíðinni á síðasta ári, hafa skerðingarnar í ár ekki komið til vegna vandræða með vatnsbúskapinn. Skerðingar hafa annars vegar komið til vegna þess að rafmagnið hefur selst upp og hins vegar vegna reglubundins viðhalds.

Fyrir mánaðamót hafði vinnsla raforku farið í á þriðja tug skipta yfir 1900 MW, það er hámarksvinnslugeta Landsvirkjunar, samanborið við 8 skipti allt árið 2022. Hin mikla eftirspurn mun skýrast af auknum umsvifum stórnotenda vegna hagstæðs afurðaverðs og vegna kuldans í vetur sem hefur aukið umtalsvert á eftirspurn.

Viðhald á vertíð óheppilegt

Jóhann Peter Andersen, framkvæmdastjóri Félags íslenskra Fiskimjölsframleiðenda, segir í samtali við Morgunblaðið að framleiðendur hefðu kosið að viðhald framleiðsluvéla á rafmagni færi fram á öðrum tíma en á meðan loðnuvertíð stendur. Hann segist þó að sama skapi sýna því skilning að Landsvirkjun hafi ekki alveg frjálsar hendur með það hvenær viðhald á sér stað.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að viðhaldstímabil fyrirtækisins á ári hverju standi í raun yfir frá janúar – desember. „Það standa sífellt einhverja aðgerðir yfir og ekki raunhæft að ætla að flytja viðhald til eftir því hvernig stendur á hverju sinni. Við reynum einmitt að dreifa því jafnt yfir árið svo áhrifin verði sem minnst,“ segir hún í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

Losun margfaldast vegna olíubrennslu

Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar kemur fram að kolefnislosun hafi aukist úr 53 þúsund tonnum CO2-íg í 72 þúsund tonn CO2-íg á síðasta ári. Munar þar mestu um losun fiskmjölsverksmiðja sem fór úr tæpum 4 þúsund tonnum í yfir 20 þúsund tonn, vegna skerðingar á afhendingu rafmagns frá Landsvirkjun sem olli því að olíunotkun jókst umtalsvert. Á Viðskiptaþingi í síðasta mánuði kom fram að rafmagnsskortur í loðnuvertíðinni á síðasta ári hefði orðið til þess að allur ávinningur af notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkast út.

Að lokinni vertíð hyggjast fiskmjölsframleiðendur setjast niður með Landsvirkjun með það að marki að finna betri lendingu en hefur verið. „Ég hugsa að við höfum öll lært eitthvað af liðinni vertíð og vonandi verður hægt að skipuleggja hlutina aðeins betur í framtíðinni. Hver niðurstaðan verður vitum við ekki, en auðvitað vonumst við öll til þess nægt framboð verði af rafmagni. Það er nauðsynlegt ef menn ætla að standa við skuldbindingar sínar um losun,“ segir Jóhann að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »