Þrjár stórfelldar líkamsárásir í nótt

Nótt­in hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu var er­il­söm.
Nótt­in hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu var er­il­söm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um nokkrar líkamsárásir, þar af þrjár stórfelldar, til lögreglu í nótt. Þær voru allar í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem sinnir Vesturbæ, Miðborg, Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og Seltjarnarnesi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í umdæminu voru einnig tveir ökumenn stöðvaðir og handteknir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og áfengis. Alls voru um fjörutíu mál skráð í kerfi lögreglu á næturvaktinni, meðal annars vegna hópsöfnunar í miðbænum og nokkurra slagsmála.

Þá var skoteldur tendraður í námunda við lögreglustöðina um miðnætti. „Vegfarendur gátu borið augum flugeldasýningu um stundarsakir, en notkun skotelda er ekki leyfð á þessum árstíma,“ segir í dagbók lögreglu.

Sprengingar í Vatnsendaskóla

Í umdæmi lögreglustöðvar 2, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi, var einn ökumaður stöðvaður vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.

Þá var tilkynnt um sprengingar í Vatnsendaskóla. „Samkvæmt tilkynnanda voru þar ungmenni að stytta sér stundir við flugeldafikt, en ungmennin voru farin þegar lögreglu bar að garði,“ segir í dagbók lögreglu.

Framvísaði fíkniefnum

Í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, voru tveir ökumenn handteknir vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, þar af var einn sem framvísaði fíkniefnum þegar komið var á lögreglustöð. Annar ökumannanna reyndist einnig sviptur ökuréttindum.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp sem reyndist minniháttar.

Viðbúnaður vegna umferðaslyss

Lögreglustöð 4, sem sinnir Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi,  Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og Kjalarnesi, kærði tvo ökumenn vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Þá var töluveður viðbúnaður vegna umferðarslyss á Suðurlandsvegi.

mbl.is