Var veikur í sex ár

Daníel Máni Konráðsson, gítarleikari í Aborted, Une Misére og Ophidian …
Daníel Máni Konráðsson, gítarleikari í Aborted, Une Misére og Ophidian I. mbl.is/Kristinn Magnússon

Daníel Máni Konráðsson, gítarleikari málmbandanna Aborted, Ophidian I og Une Misère, nýtur þess sérstaklega að standa á sviði í dag. Ekki nóg með að heimsfaraldurinn hafi höggvið allt tónleikahald í herðar niður um langa hríð, heldur glímdi hann þar á undan árum saman sjálfur við erfið veikindi.

„Það byrjaði þegar ég var rúmlega tvítugur. Ég fékk flensu og pældi svo sem ekkert meira í því. Nema hvað vikurnar liðu og ég náði mér ekki; var alltaf hálfslappur og nefið á mér stíflað. Síðan fékk ég hellu fyrir annað eyrað sem losnaði ekki. Mér var sagt að ég væri með sambland af slæmu ofnæmi, mögulega út af myglu og öðru, en engin endanleg greining lá fyrir.“

Næstu sex árin eða svo gekk Máni ekki á öllum strokkum, reyndi þó að vinna en var mikið frá vegna veikinda. „Ég var alltaf þreyttur og máttlítill og greip allar pestir og varð mjög veikur mjög hratt. En reyndi samt að harka af mér.“

Hann hafði ekki burði til að koma fram á tónleikum en greri nánast saman við gítarinn heima hjá sér. „Ég spilaði mjög mikið á gítarinn, aðallega til að halda höndunum uppteknum, og ætli það hafi ekki átt stóran þátt í að koma mér í gegnum þennan tíma. Það jákvæða við það var að ég er miklu betri gítarleiki eftir veikindin en ég var fyrir þau,“ upplýsir hann brosandi.

Það var ekki fyrr en Máni komst í kynni við Unni Steinu Björnsdóttur ofnæmislækni að land fór að rísa. Hún setti hann á öflug ofnæmislyf og sendi hann í tvær aðgerðir; fyrst á nefi til að auka loftflæðið og síðan á höfði, þar sem skorið var í höfuðkúpuna. „Mér snarbatnaði eftir það og hef verið góður síðan, það eru um það bil þrjú ár. Í dag er ég hraustur og frekar aktífur; er auðvitað á kafi í tónlistinni en stunda líka líkamsrækt og þarf ekkert að hlífa mér. Þetta er allt annað líf.“

Máni á tónleikum með Aborted í Bandaríkjunum.
Máni á tónleikum með Aborted í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Eduardo Ruiz


Missti ekki móðinn

Þrátt fyrir mótlætið missti Máni ekki móðinn og eftir að hann endurheimti heilsuna hefur sýnin verið mjög skýr – hann er staðráðinn í að skapa tónlist og helst vinna við hana í fullu starfi. „Strax og ég hafði heilsu til fór ég að vinna fyrstu plötu Ophidian I og fékk mikla útrás. Frá því að ég var krakki hef ég fengið að heyra að enginn geti unnið við tónlist á Íslandi og það á sérstaklega við um viðhorf fólks til þungarokks. „Þú verður að fá þér einnhverja vinnu með þessu, drengur!“ Þessi afstaða hefur alltaf verið mér hvatning, sérstaklega eftir að ég náði mér af veikindunum, og núna frá síðustu áramótum hef ég ekki starfað við neitt annað en þungarokk. Sem er dásamlegt. Ég viðurkenni að það er stundum fyndið að sitja heima og semja ný riff og það er bara það sem ég á að vera að gera. Þetta er vinnan mín!“

Hann hlær.

„Ég hef lagt hart að mér og núna er ég kominn á þann stað þar sem mig hefur alltaf dreymt um að vera. Fyrir það er ég rosalega þakklátur. Frá mínum bæjardyrum séð er allt sem viðkemur músík skemmtilegt, líka það sem öðrum finnst leiðinlegt, svo sem að edita eða fínessa eitthvað. Mér þykja allir hlekkirnir í keðjunni áhugaverðir.“

Nánar er rætt við Daníel Mána í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »