Yfirborð Öskjuvatns frosið á ný

SENTINEL-2 gervitunglamynd af Öskjuvatni í dag.
SENTINEL-2 gervitunglamynd af Öskjuvatni í dag.

Allt yfirborð Öskjuvatns er nú frosið aftur eftir að allur ís brotnaði upp og bráðnaði fyrr í vetur. Vísbendingar eru um að aukinn jarðhiti á svæðinu hafi komið því ferli af stað, en vindar og blöndun svo hjálpað til. Þetta staðfestir Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Ingibjörg segir það eðlilegt að vatnið frjósi aftur núna þar sem mikið frost hefur verið viðvarandi á svæðinu síðustu daga og vegna eðlis ferskvatns. Hún bendir á að yfirborð vatnsins hafi verið frosið að mestu síðan á föstudaginn.

Spennandi að fylgjast með framhaldinu

Í ósöltu vatni þá er eðlisþyngdin mest um fjórar gráður og ef það kólnar meira heldur en það þá verður sá hluti vatnsins léttari og helst við yfirborð og þá verður sterk lagskipting og þá þarftu í raun bara að kæla efsta partinn og þá myndast ísinn mjög hratt.

Hún segir það ekki koma á óvart að yfirborð vatnsins sé nú frosið en segir það vera spennandi að fylgjast með framhaldinu.

„Það eru vísbendingar um það að jarðhiti hafi aukist þarna um daginn. Við munum sjá það á næstu dögum hvort að það hafi verið eitt skot eða hvort að þessi ís fái að vera í friði eða ekki.“

Hún tekur fram að ef ísinn bráðni fái vísindamenn betri vísbendingar um hvað sé að gerast við Öskju.

Horft yfir að vökinni í Öskjuvatni.
Horft yfir að vökinni í Öskjuvatni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Loka