Gripu til málamiðlana á annarri sýningu óperunnar

Aukasýningu var bætt við vegna mikillar eftirspurnar að sögn Óperunnar.
Aukasýningu var bætt við vegna mikillar eftirspurnar að sögn Óperunnar. Ljósmynd/Íslenska óperan

Gripið var til málamiðlana í sambandi við farða leikara óperunnar Madama Butterfly, í annarri sýningu uppsetningarinnar um helgina, eftir gagnrýni sem laut að svokölluðu menningarnámi.

Stór hluti gagnrýninnar beindist að augabrúnum leikaranna sem voru skásettar, en samkvæmt heimildum mbl.is báru hvorki leikarar né kórfélagar þær í sýningunni á laugardaginn.

Nokkrir leikarar sýningarinnar fóru fram á að bera ekki hárkollur og farða sem vísaði til kynþáttar, en báru í staðinn hefðbundinn leikhúsfarðaHárkollur þeirra sem skipa kórinn voru aftur á móti óbreyttar á sýningunni.

Íslenska óperan frumsýndi verkið á laugardag í síðustu viku og hlaut um leið talsverða gagnrýni, meðal annars fyrir búninga- og förðunarval.  

Mótmæltu „yellow-face“

Sett hefur verið út á að gervi hvítra leikara sýningarinnar sé svokallað „yellow-face“ en það er þegar hvítt fólk klæðir sig upp sem asískt fólk, oft á ýktan hátt.

Yellow-face“ svipar til fyrirbærisins „blackface“ sem var vinsælt snemma á síðustu öld, þegar hvítt fólk klæddi sig upp og skopstældi svart fólk sér til skemmtunar. 

Efnt var til mótmæla við inngang Hörpu á laugardag og kröfðust mótmælendur svara af Steinunni Birnu Ragnarsdóttur óperustjóra, en hún kvaðst myndu taka málið til skoðunar.

Degi áður tilkynnti Óperan að aukasýningu yrði bætt við vegna vinsælda og eftirspurnar.

Segja óperuna hafa eytt athugasemdum

Í færslum Íslensku Óperunnar á samfélagsmiðlum sem birtar voru í gær eru áhorfendur seinni sýningarinnar sagðir hæstánægðir. 

„Það var fullt hús gesta á sýningunni okkar á Madama Butterfly í gærkvöldi og standandi lófatak hrifinna áhorfenda. Kærar þakkir fyrir komuna og við hlökkum til næstu sýningar,“ stóð í færslum Óperunnar á Facebook og Instagram.

Tveir Instagram-notendur segja Óperuna hafa eytt athugasemdum sínum við færsluna þar, en þeir höfðu sett út á viðbrögð Óperunnar við ásökununum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert