Þorgerður og Bjarni tókust á um orkumál

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar, tókust …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti Viðreisnar, tókust á um orkumál. Samsett mynd/mbl.is

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tók­ust á um aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í loftslagsmálum í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um á Alþingi í dag.

Þorgerður spurði hvernig ríkisstjórnin hygðist mæta loftslagsmarkmiðum þegar engin orka væri til staðar til þess að ráðast í græn orkuskipti og hvernig rjúfa ætti þá kyrrstöðu sem hefði ríkt í orkumálum á vakt ríkisstjórnarinnar.

Virkja þurfi vindinn

„Það var ekki til að hjálpa þróuninni að á tíu ára tímabili gat þingið ekki komist að niðurstöðu en það var svo í þessari ríkisstjórn sem málin voru kláruð. Ég tel að við þurfum að leiða fram regluverk um vindorku á Íslandi og ég horfi þannig á málin að við munum ekki ná markmiðum okkar að draga úr losun nema vindurinn verði virkjaður,“ sagði Bjarni.

Þorgerður kallaði eftir því að reynt yrði á meirihluta þingsins til þess að hægt væri að ýta einhverju áfram, ef það væri alvara um að ná markmiðum um orkuskipti árið 2030.

Ryðja þurfi burt öllu tefjandi regluverki

Bjarni benti þá á að einfaldast væri að koma í þingsal og samþykkja markmið um losun eða fljúga um allan heim til þess að skrifa upp á metnaðarfull markmið.

„Það er léttvægt að koma hingað og samþykkja aðgerðir um losun en það þarf frekari aðgerðir samanber því sem gert er í Evrópusambandinu. Finnist einhvers staðar grænn virkjunarkostur þá ber að ryðja burtu öllu regluverki sem tefur fyrir því að hann sé nýttur,“ sagði Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert