„Fólk miss­ir bara vinn­una“

Thelma veit ekki hvað hún kemur til með að segja …
Thelma veit ekki hvað hún kemur til með að segja vinnuveitandanum þegar fæðingarorlofinu lýkur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held að foreldar hafi fengið áfall í gær. Öllu fögru hefur verið lofað og ekki staðið við neitt,“ segir Thelma Björk Wilson í samtali við mbl.is.

Vísar hún til frétta frá því í gær um að færri börn verði innrituð á leikskóla Reykjavíkurborgar næsta haust en vonir stóðu til um og að neyð blasi við, meðal annars vegna framkvæmda og endurbóta á leikskólahúsnæði.

Thelmu blöskraði svo að hún stofnaði Facebook-hópinn Leikskólamál í lamasessi í Reykjavík 2023 og vill vekja athygli á slæmri stöðu í þessum málaflokki hjá borginni. Ekki sé nóg hjá borgaryfirvöldum að útskýra hvers vegna áform hafi ekki staðist, heldur verði að leggja til einhverjar lausnir. Sjálf hefur hún ekki fengið dagvistun fyrir sitt barn og veit ekki hvað tekur við þegar fæðingarorlofinu lýkur.

Framkvæmdir og endurbætur á leikskólahúsnæði munu hafa áhrif á innritun í sjö leikskóla í haust, sem hefur svo keðjuverkandi áhrif, þar sem einhverjir foreldrar hafa breytt umsóknum sínum í þeirri von um að koma börnum sínum frekar inn á aðra leikskóla.

Thelma bendir á foreldrar sem hafi sótt um á þeim leikskólum þar sem endurbætur eða framkvæmdir standa yfir, hafi fengið póst um að fá engin eða mjög fá börn komist þar inn. Í póstinum sé jafnframt mælt því fólk breyti umsóknum sínum og setji annan leikskóla í fyrsta val eða merki við fleiri valkosti en einn eða tvo.

„Fólk er þá kannski að fara aftar á lista. Fólk veit ekki hvað það á að gera og þetta er óviðunandi ástand.“

Flytja í foreldrahús til hafa efni á að lifa

Thelma, sem sjálf er með 7 mánaða barn, sem hún gerir ekki ráð fyrir að komist inn á leikskóla á vegum borgarinnar fyrr en haustið 2024, miðað við stöðuna eins og hún er í dag, vonast til að foreldar geti sameinast sem þrýstiafl og knúið fram breytingar.

Hún segir hópinn, Leikskólamál í lamasessi í Reykjavík 2023, algjörlega hafa sprungið á fyrsta degi en í honum eru nú um 400 manns. Boðað hefur verið til mótmæla í Ráðhúsinu á fimmtudaginn kl. 9, þegar fundur í borgarráði fer fram.

„Það eru allir með fáránlegar sögur. Fólk er að flytja úr íbúðunum sínum og leigja þær á Airbnb. Flytja í foreldrahús til hafa efni á því að lifa,“ segir Thelma og vísar þar til fólks sem ekki hefur fengið dagvistun, hefur því ekki getað farið aftur að vinna eftir fæðingarorlof og er fyrir vikið algjörlega tekjulaust.

„Það er alltaf verið að tala um að brúa bilið. Núna er fæðingarorlof 12 mánuðir en meðalaldur inn á leikskóla í borginni 20 mánaða, þannig þetta eru heilir átta mánuðir sem foreldrar þurfa að brúa. Jú það eru einhverjir ungbarnaleikskólar og nokkrir dagforeldrar,“ segir hún en bendir á að þeim fari stöðugt fækkandi.

Færri börn komast inn á leikskóla Reykjavíkurborgar næsta haust en …
Færri börn komast inn á leikskóla Reykjavíkurborgar næsta haust en vonir stóðu til um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veit ekki hvað hún segir vinnuveitandanum

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur ekki enn getað gefið upplýsingar um meðalaldur barna sem tekin verða inn í haust eða hve neðarlega í aldri verði komist við úthlutun. Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að meðalaldur barna við inngöngu á leikskóla hefði verið 20 mánaða í febrúar síðastliðnum.

Í mars á síðasta ári sendi Reykja­vík­ur­borg frá sér til­kynn­ingu þar sem fram kom að opna ætti sjö nýja leik­skóla á ár­inu og stefndi borg­in á að taka í notk­un 850 leik­skóla­pláss sam­hliða því. Þá stóð til að bjóða ætti börn­um frá 12 mánaða aldri pláss á leik­skól­um síðasta haust. Þau áform hafa hins vegar ekki staðist.

Thelma segir engan hvata vera fyrir dagforeldra til að starfa áfram vegna ítrekaðra yfirlýsinga borgaryfirvalda um að börnum frá 12 mánaða aldri verði boðin leikskólapláss.

„Svo eru börnin hjá dagforeldrum orðin miklu eldri því leikskólar eru að taka börnin svo seint inn. Ég veit um mjög fáa sem hafa fengið pláss hjá dagforeldrum. Maður spyr sig, hvað á fólk í alvörunni að gera? Líka bara fyrir komandi kynslóðir, þetta er mjög letjandi kerfi til barneigna. Þú sérð fyrir þér, ef þú eignast barn, að vera í einhverskonar óvissu orlofi um óákveðinn tíma og annar aðilinn á heimilinu verður þá kannski tekjulaus.“

Sjálf veit Thelma ekki hvað hún á að gera í haust þegar 12 mánaða fæðingarorlofi hennar og barnsföður hennar lýkur. „Ég velti fyrir mér hvað ég á að gera í haust og hvað ég á að segja mínum vinnuveitanda. Fólk missir bara vinnuna.“

Leikskólabörn að leik.
Leikskólabörn að leik. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Fela sig bak við myglumálin

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag það vera bagalegt að ekki væri hægt að taka inn eins mörg börn á leikskóla borgarinnar í haust og til stóð. Skýringarnar væru þær að borgin hefði misst of mikið húsnæði tímabundið úr rekstri vegna framkvæmda, börnum hefði fjölgað meira í Reykjavík en spár gerðu ráð fyrir og tafir hafi verið á afhendingu nýs leikskólahúsnæðis.

Thelma segist alveg skilja að eitthvað óvænt geti komið upp sem geri það að verkum að áform standist ekki, og eðlilegt sé að útskýra það. Það vanti hins vegar einhverjar lausnir á vandanum.

„Það er allt í lagi að skýra af hverju þetta gekk ekki upp, en hvað tekur þá við í staðinn? Önnur sveitarfélög eru að bregðast við þessu og þetta virðist í lagi í nágrannalöndunum. Þau geta alltaf falið sig á bakvið að þetta sé myglumálum að kenna. Auðvitað verður allt erfiðara en ég trúi ekki að það sé ástæðan,“ segir Thelma.

Hún hvetur alla þá sem vilja sjá breytingar til að mæta í ráðhúsið á fimmtudaginn og taka þátt í mótmælunum. Ekki bara foreldra með börn sem fá ekki leikskólapláss, heldur líka aðra foreldra, verðandi foreldra, ömmur og afa og alla hina.

mbl.is