Yfirheyrslur yfir manninum standa yfir

Skotinu var hleypt af á sunnudagskvöld.
Skotinu var hleypt af á sunnudagskvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirheyrslur yfir manninum, sem liggur undir grun vegna skotsins sem hleypt var af á Dubliner á sunnudagskvöld, standa nú yfir. Tekin verður afstaða til gæsluvarðhalds þegar líður á daginn.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Hann segir manninn sem liggur undir grun vera um þrítugt en kýs að tjá sig ekki um hvort hann hafi komið áður við sögu hjá lögreglu.

Hvað varðar byssukúluna sem hafnaði í vegg inni á staðnum og byssuna sem fannst nærri vettvangi segist Grímur hvorki vilja tjá sig um hvort byssan tengist árásinni né af hvaða gerð kúlan er. Hann staðfestir þó að byssan sem fannst sé ekki þvívíddarprentuð.

Spurður segir hann rannsóknina ganga vel en næstu skref séu yfirheyrslur og yfirferð gagna.

Skotið hafnaði í vegg við barinn og hlutu tveir aðhlynningu í kjölfarið. Annar þeirra hafði áhyggjur af heyrn sinni eftir atvikið og hinn var með skrámu á höfði. Síðar kom í ljós að skráman tengdist ekki skotinu.

Þá var hinn grunaði handtekinn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert