„Ámælisvert að málið liggi í þagnargildi“

Canexel klæðning.
Canexel klæðning. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er mjög útbreiddur og algengur galli á þessum klæðningum,“ segir Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður, sem gætt hefur hagsmuna viðskiptavina Þ. Þorgrímsson & co, í málum sem varða galla á utanhússklæðningum frá fyrirtækinu.

„Eftir að ég byrjaði að gæta hagsmuna viðkiptavina fyrirtækisins hafa hátt í eitthundrað einstaklingar haft samband við mig og óskað eftir því að ég skoði þeirra mál. Auðvitað er ekki nema hluti þeirra sem treystir sér til að fara í dómsmál eða stofna til kostnaðar,“ segir Einar.

Sama klæðning enn í sölu

Hann segir að sér þyki sérstaklega ámælisvert að málið virðist liggja í einhvers konar þagnargildi hjá söluaðilannum sem enn þann dag í dag selji þessa sömu klæðningu.

„Söluaðilinn gefur þær upplýsingar til væntanlegra kaupenda að þetta efni sé sérstaklega endingargott, viðhaldsfrítt og henti vel fyrir íslenskar aðstæður. Hann nefnir ekki á nokkrum stað að sex dómar hafa fallið á síðustu árum, allir á einn veg um að klæðningin sé haldin þessum galla.“

Þolir ekki íslenska veðráttu

Einar segir á annan tug sérfræðinga hafi komið að dómsmálum síðustu ára.

„Það má lesa úr þeim niðurstöðum almennt að ástæður gallana séu þær að þessi tiltekna klæðning þoli ekki íslenska veðráttu. Klæðningin er rakadræg og það sem gerist er að yfirborðshúð hennar fer að flagna og vatnið á þá greiða leið inn í klæðninguna. Þannig bólgnar hún út og sveigist og er þá ónýt í framhaldinu.“

Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður.
Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Sérstaklega rakadræg

Málatilbúnað fyrirtækisins um að uppsetning klæðningarinnar, loftun eða annað slíkt segir Einar að dómstólar hafi í öllum tilvikum hafnað.

„Niðurstaðan hefur einfaldlega verið að eðli gallans sé það að klæðningin þoli ekki íslenskar aðstæður vegna þessarar rakadrægni. Það er búið að fjalla um þennan málatilbúnað um uppsetningu og loftun og jafnvel þó í einhverjum tilvikum hafi leiðbeiningum ekki verið fylgt út í ystu æsar þá hefur það samt sem áður ekki verið talin orsök gallana,“ segir Einar og bætir við.

Niðurstöður úttektar Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins rennir stoðum undir það. Niðurstaðan er einfaldlega sú að klæðningin sé sérstaklega rakadræg.“

Kom hvergi fram í leiðbeiningum

Í matsgerð sem Þ. Þorgrímsson & co lagði fram í einu málanna taldi matsmaður viðhaldi á klæðningunni áfátt og að til dæmis hefði mátt mála hana. Einar segir það sjálfgefið að klæðningu sem er markaðssett sem viðhaldsfrí þurfi ekki að mála sérstaklega enda hafi það hvergi komið fram í leiðbeiningum frá söluaðilanum.

„Mér finnst satt að segja mikill ábyrgðarhluti hjá stórri byggingavöruverslun að vekja ekki athygli viðskiptavina sinna á þessum dómum sem hafa fallið og því að þessi klæðning sé sérstaklega viðkvæm fyrr raka,“ segir Einar.

Neitar að gangast við ábyrgð sinni

Heldur hann áfram:

„Það er mikill ábyrgðarhluti að vekja ekki athygli viðskiptavina sinna á því að klæðningin geti skemmst löngu innan ábrygaðartímans sem söluaðilinn gefur upp. Klæðningin var seld með 25 ára ábyrgð á efninu og 15 ára ábyrgð á húð efnisins.

Það er fáheyrt og ég veit ekki um mörg dæmi um að svo víðtæk ábyrgð sé veitt og að klæðningin sé auglýst þannig að hún sé viðhaldsfrí en síðan þegar koma upp gallar þá neiti söluaðilinn að gangast við ábyrgð sinni.

Það er það sem mér finnst ámælisvert og gríðarlega áhugavert í þessu máli.“

mbl.is