Hjalti Pálsson hlaut viðurkenningu Hagþenkis

Ritstjórinn Hjalti Pálsson hlaut viðurkenningu Hagþenkis.
Ritstjórinn Hjalti Pálsson hlaut viðurkenningu Hagþenkis. mbl.is/Árni Sæberg

Hjalti Pálsson hlaut viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, í ár fyrir ritverkið Byggðasaga Skagafjarðar I.–X. bindi.  Verðlaunin voru afhent á Þjóðminjasafninu kl. 17 í dag.

Í greinargerð viðurkenningar­ráðs Hagþenkis sem Súsanna Margrét Gestsdóttir las upp við athöfnina segir m.a.: 

„Við erum sammála um að þetta feykiveglega rit eigi eftir að halda gildi sínu um ókomna tíð og umfram allt muni það auðvelda alls konar lesendum með margvísleg áhugamál að njóta þess gnægtabrunns fróðleiks og sögu sem Skagafjörður er.“

Í ráðinu sátu auk Súsönnu þau Ársæll Arnarson, Halldóra Kristinsdóttir, Sigurður Sveinn Snorrason og Svanhildur Óskarsdóttir.

Sterkar rætur í Skagafirði

„Ég er fæddur í þessu byggðarlagi í Skagafirði og hef þar sterkar rætur,“ segir Hjalti í samtali við Morgunblaðið.

„Mér þykir mjög vænt um að hafa fengið að gera þetta. Mín hugsjón var að þetta yrði samfélaginu að gagni og það hefur vissulega þegar orðið það. Byggðasagan hefur verið notuð í sambandi við ferðaþjónustu, skipulagsmál, fornleifaskráningu og ýmislegt fleira.“

Lengra viðtal við Hjalta má finna á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert