Innritun í leikskóla endurskoðuð í haust

Yngstu börnin sem fá boð um leikskólapláss í fyrstu lotu …
Yngstu börnin sem fá boð um leikskólapláss í fyrstu lotu eru fædd í mars 2022. Samsett mynd

Í gær hófst fyrsta innritunarlota ársins á leikskóla Reykjavíkurborgar og verður 1.200 plássum úthlutað á næstu vikum. Yngstu börnin sem fá boð í þessari fyrstu lotu eru fædd í febrúar 2022 og verða 18 mánaða í september, en það miðast við að pláss séu laus í þeim leikskólum sem sótt var um.

Ef enn verða laus pláss þegar því ferli lýkur verður börnum fæddum í mars 2022 boðið pláss og svo koll af kolli, en börnin eru tekin inn á leikskóla eftir kennitöluröð. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is. Börn sem eiga rétt á forgangi hafa þegar fengið boð um pláss, en þau eru tekin inn frá 12 mánaða aldri. 

Ekki er hægt að senda boð um pláss til allra sama daginn, enda er úthlutun að einhverju leyti háð samþykki eða höfnun foreldra annarra barna á plássi. Gert er ráð fyrir að fyrstu úthlutun, sem gjarnan er talað um sem stóru úthlutunina, verði lokið þann 17. apríl og verður þá byrjað að raða umsóknum sem berast eftir 14. mars.

Þá segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður skóla- og frístundasviðs, í samtali við mbl.is að innritun í leikskóla Reykjavíkurborgar verði endurskoðuð í haust þegar þegar það verður komið nákvæmlega á hreint hve mörg pláss verða í boði, með tilliti til þeirra framkvæmda og endurbóta sem standa yfir nokkrum leikskólum borgarinnar. 

„Í staðinn fyrir að ég sé að lofa einhverjum plássum sem getur breyst af því einhverjir verktakar fást ekki til að klára eitthvað, þá viljum við frekar endurskoða innritunina í haust þegar við sjáum hvað verður hægt að opna,“ segir Árelía.

Komast ekki nálægt takmarki í sumum hverfum

Fyrir liggur að færri börn verða innrituð í leikskóla borgarinnar í haust en vonir stóðu til, meðal annars vegna framkvæmda og endurbóta. Mun þetta hafa bein áhrif á sjö leikskóla en keðjuverkandi áhrif á fleiri því börnin sem hefðu annars farið á þessa leikskóla, raðast niður á aðra. Á síðasta ári urðu til 588 ný leikskólapláss í borginni en aðeins hluti af þeim plássum nýtist sem ný pláss, þar sem hluti er notaður fyrir börn sem færa hefur þurft til vegna framkvæmda.

Þeir leikskólar sem ekki taka við neinum nýjum eða færri börnum í haust, byrja að bjóða fleiri pláss um leið og framkvæmdum lýkur, segir í svörum frá borginni.

„Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta við plássum og hugsum í fjölbreyttum lausnum. Núna erum taka stöðuna og vinna með hana eins og er. Bara það að átta sig nákvæmlega á stöðunni er algjörlega númer eitt, tvö og þrjú hjá mér til að gefa algjörlega raunhæfar væntingar, þannig þær séu réttar,“ segir Árelía og áréttar að staðan sé ekki eins og vonir stóðu til.

„Við erum ekki langt frá þeirri stöðu sem við vorum í síðasta haust, að því leiti til að í sumum hverfum erum við ekki að komast nálægt takmarki okkar. Það á sér skýringar. Þegar maður er kjörinn fulltrúi og er að ýta á kerfið þá blasir það við að það eru að koma upp vandamál í húsnæði og af því við erum ábyrg og af því við viljum bjóða börnum og starfsfólki okkar öruggt og gott umhverfi, þá færum við til bæði börn og starfsfólk, sem hefur valdið þessu raski.“

Eina leiðin að gera raunhæfar áætlanir

Árelía segir tvennt í forgangi hjá borginni núna, það er að koma öllum börnum aftur á sinn heimaleikskóla og búa til ný pláss. Það að borgin sé háð utanaðkomandi breytum, eins og fjölgun barna umfram spár, skilum verktaka og óvæntra framkvæmda, geri verkefnið hins vegar erfiðara.

„Þetta er að gerast. Ég geri mér alveg grein fyrir því að við erum að vinna í kerfi sem hefur fengið á sig vantraust. Eina leiðin til að vinna það traust aftur er að gera raunhæfar áætlanir sem hægt er að standa við.“

Þá segir hún einnig mikilvægt að hafa í huga að unnið hafi verið að því síðustu misseri að bæta starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar, gera það spennandi og áhugavert og laða að starfsfólk.

„Við erum að vinna að því að halda því áfram. Við erum að öðlast meira sjálfstraust í að við séum að geta gert það líka. Við erum búin að var í töluverðri krísustjórnun og fólk er að leggja mikið á sig.“

Skilur gremju foreldra

Spurð hvort standi til að skoða aðrar lausnir á meðan ástandið er jafn slæmt og raun ber vitni, eins og heimgreiðslur til foreldra sem fá ekki leikskólapláss fyrir börn sín, sem hafa meðal annars verið teknar upp í Garðabæ og á Akureyri, segir Árelía ákveðnar tillögur hafa verið settar fram síðasta haust.

„Við reynum eins og við getum að hugsa eftir fjölbreyttum leiðum.“

Árelía segist vel skilja gremju foreldra, en bendir á að sex leikskólar hafi verið opnaðir í Reykjavík á síðasta ári.

„Það er ekki eins og borgin sé ekki að gera allt sem í hennar valdi stendur, heldur eru við að takast á við umhverfisþætti sem eru mjög okkur í óhag þetta síðasta ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert