Landspítali færður af óvissustigi

Landspítali var settur á óvissustig vegna atburða í Wuhan-borg í …
Landspítali var settur á óvissustig vegna atburða í Wuhan-borg í Kína þann 30. janúar 2020. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Landspítali hefur verið færður af óvissustigi vegna Covid-19. Forstjóri Landspítala ákvað þetta í samráði við farsóttanefnd í gær. 

Rúmt ár er liðið frá því að takmörkunum í landinu vegna kórónaveirunnar var aflétt en þetta mun vera í fyrsta sinn frá því í janúar árið 2020 að spítalinn er ekki á óvissu-, hættu- eða neyðarstigi vegna Covid-19.

Landspítalinn var settur á óvissustig þann 30. janúar árið 2020 en síðan þá hefur hann verið færður á óvissustig, hættustig eða neyðarstig alls 19 sinnum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef spítalans.

Sjúkdómurinn búinn að ná jafnvægi

Í viðbragðsáætlun Landspítala er gert ráð fyrir því að spítalinn sé settur á óvissustig þegar hafa þarf viðbúnað vegna mögulegs eða orðins atburðar. Dagleg starfsemi ræður við atburðinn, upplýsingar eru óljósar eða ekki nægar til að virkja viðbragðsáætlun til fulls. Farsóttanefnd er að störfum á óvissustigi og er tengiliður við sóttvarnalækni.

Nú, rúmlega þremur árum eftir fyrsta óvissustig vegna COVID-19, er staðan sú að sjúkdómurinn virðist vera búinn að ná jafnvægi í samfélaginu. Því er ekki lengur ástæða til að vera með sérstakar aðgerðir innan spítalans aðrar en sýkingavarnir til að verjast sjúkdómnum. Þannig var grímuskyldu breytt í valkvæða grímunotkun þann 10. mars sl. og þar með voru síðustu sértæku ráðstafanirnar felldar úr gildi,“ segir í tilkynningunni.

Tekið er fram að þrátt fyrir þennan áfanga er enn full ástæða til að fylgjast vel með og vera á tánum gagnvart nýjum afbrigðum veirunnar, breyttri sjúkdómsmynd og nýjum farsóttum.

mbl.is