„Vakti ýmsar tilfinningar“

Katrín og Selenskí fallast í faðma að loknum viðræðum þeirra …
Katrín og Selenskí fallast í faðma að loknum viðræðum þeirra í gærdag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir segir ferð sína til Úkraínu hafa verið afar gagnlega, en hún hitti Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í gær, auk þess sem hún kynnti sér vegsummerki árásarstríðs Rússa á Úkraínu, þar á meðal á vettvangi fjöldamorðanna í Bútsja, þorpi í útjaðri höfuðborgarinnar Kænugarðs.

„Við fórum yfir stöðuna í stríðinu og samfélaginu almennt,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið um fund þeirra Selenskís. „Það sem hann vildi sérstaklega ræða var annars vegar hvað við gætum gert í okkar stuðningi við Úkraínu og nefndi bæði orkuuppbyggingu og stuðning við endurreisn heilbrigðiskerfisins. Við höfum nú þegar gert ráð fyrir fjárstuðningi við Úkraínu á næsta ári, þannig að hann vildi nefna slík áþreifanleg verkefni.“

Hins vegar vildi hann ræða leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík í maí og áherslur Úkraínu á honum, sérstaklega að þar væri rædd hin 10 punkta friðaráætlun, sem hann hefur kynnt.

„Við tókum vel í það og áttum góðan fund með honum og svo síðar forsætisráðherranum Denys Shmyhal, þar sem við fórum rækilega yfir það sem lýtur að ábyrgðarskyldunni í friðaráætluninni, umhverfismálum og uppbyggingu réttarríkisins í kjölfar átakanna.“

Katrín segir að það verði unnið og rætt áfram fyrir leiðtogafundinn.

Hvernig kom Selenskí þér fyrir sjónir?

„Það er náttúrlega merkilegt að hitta einhvern, sem maður hefur séð svo oft, en aldrei hitt í verunni. Við áttum örstutt tveggja manna tal, okkar á milli, og hann kom mér fyrir sjónir sem forseti, sem sá örugglega ekki fyrir þetta hlutverk sem hann hefur tekist á hendur, en um leið hefur það auðvitað tekið yfir allt annað.“

Var ferðin gagnleg fyrir þig?

„Já, hún var mjög gagnleg, sérstaklega hvað varðar þetta formennskuhlutverk okkar í Evrópuráðinu.

En svo vakti hún og skilur eftir sig alls konar tilfinningar. Það er skrýtið að vera í samfélagi, þar sem allir reyna að láta allt ganga sinn vanagang, en svo sér maður þessi stríðsummerki allt í kringum sig.“

Finnst þér þú skilja ástandið betur í dag en í gær?

„Já. Ég hef aldrei komið á átakasvæði áður. Að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem skilur, eins og ég segi, ýmsar tilfinningar eftir sig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »