„Hættu að ljúga“

Helga Vala segir Ásmund kjósa að ljúga.
Helga Vala segir Ásmund kjósa að ljúga. Samsett mynd

Til snarpra orðaskipta kom á milli Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingar, og Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, eftir atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið á Alþingi í gærkvöldi.

Á upptöku af þingfundi heyrist hvar Helga Vala sakar Ásmund um lygar, en ekki er hægt að greina frekari orðaskil með góðu móti.

Sagði hana græða á flóttafólki

„Hættu að ljúga Ásmundur Friðriksson, hættu að ljúga,“ sagði Helga Vala, eftir að hún kom úr pontu þar sem hún gerði grein fyrir atkvæði sínu.

Í samtali við mbl.is segir Helga Vala Ásmund hafa verið að segja við sessunauta sína að hún hefði fjárhagslegra hagsmuna að gæta þegar kæmi að flóttafólki og því væri ekkert að marka hana.

„Hann var að ljúga að ég væri í eigin hagsmunum fjárhagslegum, þegar ég væri að tala um málefni fólks á flótta. Að það væri ekkert að marka það sem ég segði því ég væri að græða svo mikið á flóttafólki,“ segir Helga Vala.

„Hann veit þetta alveg“

Vísaði Ásmundur máli sínu til stuðnings til þess að Helga Vala hefði starfað sem talsmaður fólks á flótta. Sjálf bendir hún á að það hafi verið á árunum 2011 og 2014 og hún sinni því starfi ekki lengur, enda hafi hún verið á þingi í fimm ár.

„Hann veit þetta alveg, ég er margbúin að svara þessu. Hann bara kýs að ljúga,“ segir Helga Vala.

„Hann virðist ganga út frá því að fólk geri aldrei neitt nema græða á því sjálft. Það er fyrsta hugsun hjá honum einhverra hluta vegna,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert