„Hef ekki sagt neitt í þessa veru“

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingar.
Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingar. Ljósmynd/Aðsend

Skúli Helgason, fyrrverandi formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir það af og frá að hann hafi sagt að ekki yrði þörf á dagforeldrum árið 2023. Ómögulegt sé að segja til um það hvers vegna fækkun dagforeldra sé til komin. Fólk skipti sífellt um starfsvettvang af ólíkum orsökum. Þá segir hann að til standi að styrkja dagforeldrakerfið.

Skúli svarar með þessu gagnrýni Halldóru Bjarkar Þórarinsdóttur, formanns Barnsins, félags dagforeldra.

Halldóra sagði meðal annars að dagforeldrar hefðu margir hverjir ákveðið að leggja árar í bát eftir fund með Skúla í Vindheimum í febrúar árið 2019. Sagði hún að Skúli hefði sagt á fundinum að dagforeldrar yrðu óþarfir árið 2023 því þá ættu öll börn eldri en 12 mánaða að vera komin með vistun á leikskóla. 

Skúli, sem er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er nú formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs en var formaður skóla- og frístundaráðs á síðasta kjörtímabili frá 2018 til 2022.

Halldóra Björk Þórarinsdóttir.
Halldóra Björk Þórarinsdóttir.

Fjöldi dagforeldra meira en helmingast

„Þessi ummæli koma mér á óvart því ég hef ekki sagt neitt í þessa veru. Ég er hjartanlega ósammála því að dagforeldrar séu eða verði óþarfir. Mín sýn hefur alltaf verið sú að dagforeldrar gegni mikilvægu hlutverki og séu nauðsynlegur valkostur fyrir foreldra,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.

Í kynningu frá fundinum sem mbl.is hefur undir höndum koma fram áætlanir um að koma öllum börnum 12 mánaða og eldri fyrir á leikskólanum.  

Starfandi dagforeldrum hefur fækkað úr 198 árið 2014, í 98 árið 2022 en í mars 2023 eru 86 dag­for­eldr­ar skráðir í Reykja­vík. Þykir skortur á dagforeldrum auka vanda barnafjölskyldna sem ekki koma börnum í vistun á leikskóla. 

Margar ástæður fyrir breytingum 

Í ljósi þess að dagforeldrar fengu kynningu þess efnis að öll börn ættu að vera komin með leikskólavist frá 12 mánaða aldri frá 2023 er þá ekki eðlilegt að dagforeldrar hafi litið svo á eftirspurn væri ekki til staðar eftir þeirra kröftum?

„Nei ég lít ekki svo á. Við búum í samfélagi þar sem fólk er stöðugt að taka ákvarðanir um breytingar á sínu lífi,“ segir Skúli.

„Eftir sem áður verður eftirspurn eftir dagforeldrum og þetta úrræði er gríðarlega mikilvægt fyrir marga foreldra. Vissulega erum við í mikilli leikskólauppbyggingu þó við sjáum ekki áhrif þess að fullu á meðan þessar miklu framkvæmdir eru í eldra húsnæði.“

Viðvarandi verkefni að bæta starfsumhverfið

Er ekki seint í rassinn gripið að vera að styrkja dagforeldrakerfið á þessum tímapunkti í ljósi þess að í mörg ár hafa færri komist að en vilja í leikskólum?

„Eins þægilegt og það væri að hreinsa öll svona mál upp í eitt skipti fyrir öll þá er veruleikinn sá að við þurfum í sífellu að vera meðvituð um það viðvarandi verkefni að bæta þessi kerfi sem snúa að menntun eða þroska ungra barna,“ segir Skúli.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á fleiri dagforeldrar hefji störf á næstunni þá kveðst Skúli vongóður um að svo verði.

Unnið sé að frekari niðurgreiðslum til dagforeldra, greiðslu aðstöðu- og námsstyrks en einnig leitað leiða til að lækka kostnaðarhlutdeild foreldra auk þess að rýna í stofnstyrki sem eru 300.000 krónur og hafa haldist óbreyttir frá 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert