Tæp 200 þúsund í mínus vegna kerfisbilunar

Kerfisvilla hjá Íslandsbanka leiddi til þess að viðskiptavinir voru rukkaðir …
Kerfisvilla hjá Íslandsbanka leiddi til þess að viðskiptavinir voru rukkaðir aftur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allmargir viðskiptavinir Íslandsbanka voru rukkaðir aukalega fyrir eldri færslur eftir hádegi í dag, sökum villu í kerfi bankans. Verið er að vinna í lagfæringum en ekki hefur verið gefið upp hvað olli villunni.

Ýmsum viðskiptavinum Íslandsbanka hefur eflaust brugðið við það að sjá óvæntar fjárupphæðir dregnar af heimabanka sínum. Í dag voru margir rukkaðir oft fyrir gamlar færslur, einkum frá því í gær. Misjafnt var hversu oft fólk var rukkað. Sumir voru rukkaðir aukalega einu sinni en aðrir a.m.k. sex sinnum samkvæmt heimildum mbl.is.

Margir fengu að sjá að fé til ráðstöfunar á debetreikningum þeirra væri orðið neikvætt og mbl.is hefur það eftir einum viðskiptavini bankans að ráðstöfunarfé hans hafi fallið niður í 194.000 krónur í mínus.

Lagað innan við næsta klukkutíma

Samkvæmt svörum Íslandsbanka við fyrirspurn mbl.is kom kerfisvilla upp. Búið er að greina villuna en ekki fengust svör við því hvað hefði valdið henni og leitt til þess að dregið var út af reikningum viðskiptavina.

Villan snerti aðeins hluta af viðskiptavinum bankans og samkvæmt svörum frá honum ætti villan að vera komin í lag innan klukkustundar.

mbl.is