„Við erum að horfa fram á hústöku“

Helga Vala segir frumvarpið skapa vanda án þess að taka …
Helga Vala segir frumvarpið skapa vanda án þess að taka á þeim vanda sem er til staðar. mbl.is/Árni Sæberg

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur nýsamþykkt útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra geta valdið óafturkræfu tjóni á íslensku samfélagi. Viðbúið sé að fólk á flótta sem synjað verði um þjónustu endi á götunni og þannig skapist annars konar vandi.

„Við erum að horfa fram á hústöku og fólk að sofa undir brúnni, jafnvel fólk með djúpstæðan heilbrigðisvanda sem veldur hættu í samfélaginu, eins og kom fram í umsögn landlæknis, þar sem ekki er hægt að fylgjast með því,“ segir Helga Vala í samtali við mbl.is

„Þetta er bara ekki nógu vel úthugsað og illa gert, fyrir utan mannúðina sem skortir í þetta mál,“ bætir hún við. En meðal annars verður heimilt að svipta fólk á flótta heilbrigðisþjónustu, undir vissum kringumstæðum.

Tekur ekki á vandanum sem er til staðar

„Frumvarpið sem slíkt er ekkert að vinna á því verkefni sem við stöndum frammi fyrir, sem er auðvitað ofboðslegur fjöldi fólks á flótta. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem tekur á því.

Það eina sem er að gerast er skerðing á réttindum barna, sem áður gátu fengið efnismeðferð ef þau höfðu verið hérna lengi. Skerðing á réttindum fólks sem hefur fengið synjun en ekki er hægt að senda burt. Annars vegar af því hafa ekki vegabréf eða móttökuríki neitar að taka á móti. Þetta er alþjóðlegt verkefni.“

Hún bendir á sum ríki neiti að taka við ríkisborgurum sínum ef þeir hafa farið ólöglega út úr landinu.

„Við erum að fara að henda þessu fólki út á götu og svipta það allri þjónustu. Meira að segja nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.“

Snýst ekki um „no borders“ viðhorf

Frumvarpið muni ekki leysa neinn vanda og segir hún félagsmálaráðherra vita það, þó hann segi að sveitarfélögin muni sinna þessu fólki.

„Úrræðin sem sveitarfélögin eru með fyrir útlendinga í neyð eru bara allt annað, það er miklu dýrara og miklu óskilvirkara. Það er rosalegt flækjustig. Þessir einstaklingar eru ekkert endilega að komast inn í það kerfi,“ segir Helga Vala.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að vinna í að koma breytingum á útlendingafrumvarpinu í gegn. Við höfum talað fyrir því að við gerum þetta heildstætt. Við förum ekki í einhvern bútasaum þar sem við erum ekki að valda miklu tjóni í ákveðnum anga,“ segir hún jafnframt.

Þá bendir hún á að breytingar útlendingalögunum hafi áður verið gerðar í góðri samvinnu og Samfylkingin hafi viljað svipaða vinnu aftur.

„Þetta snýst ekkert um „no borders“ viðhorf, þetta snýst um að við séum ekki að valda óafturkræfu tjóni á íslensku samfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert