Borgin sendi póst til leikskólastjóra vegna samskipta við fjölmiðla

Foreldrar fjölmenntu í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær til að mótmæla …
Foreldrar fjölmenntu í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær til að mótmæla stöðu innritunarmála í leikskólum borgarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikskólastjórum í Reykjavík var sendur tölvupóstur í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins um leikskólamál. Í póstinum voru bornar upp ýmsar tiltækar leiðir til þess að hafa samskipti við fjölmiðla, lagðar fram tillögur um hvað beri að gera og boðinn stuðningur við svörun til fjölmiðla.

 Bréfið er sent í nafni Ólafs Brynjars Bjarkasonar, skrifstofustjóra leikskólahluta fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs.  

Stuðningur við svörun 

Í póstinum sem sendur var á alla leikskólastjóra er sagt að gott sé að biðja um skriflega fyrirspurn til að fá „stuðning við svörun.“ Einnig að gott sé að óska eftir upplýsingum um það hvað verði haft eftir fólki. Þá er leikskólastjórum bent á að ef fjölmiðlar hafa samband símleiðis sé „mjög mikilvægt að hafa í huga að þið þurfið ekki að svara strax heldur getið þið tekið ykkur tíma og hringt til baka eða beðið um að hringt sé í ykkur eftir ákveðinn tíma,“ segir í tölvupóstinum. 

Póstur sem sendur var á leikskólastjóra með leiðbeiningum um samskipti …
Póstur sem sendur var á leikskólastjóra með leiðbeiningum um samskipti við fjölmiðla.

Að lokum er bent á að ávallt sé hægt að hafa samband við upplýsingafulltrúa skóla- og frístundasviðs til að fá ráðgjöf. 

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag um innritunarmál á leikskólum eru höfð eftir ummæli frá tveimur leikskólastjórum sem lýstu stöðu mála í þeirra leikskólum. 

Ekki verið að banna fólki að tala 

Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, segir ekki verið að banna leikskólastjórum að tjá sig við fjölmiðla heldur verið að benda fólki sem er óvant fjölmiðlaumfjöllun á leiðir til samskipta við fjölmiðla. 

„Við erum bara að benda á að fólk megi taka sér tíma, hugsa málið vegna þess að fólk sé ekki vant að tala við fjölmiðla. Það er enginn að segja að fólk megi ekki tala við fjölmiðla. Það er bara verið að segja að ef þér finnst þetta óþægilegt þá máttu tala við upplýsingafulltrúa að fá ráðgjöf. Það er ekki stefna Reykjavíkurborgar að banna fólki að tala,“ segir Eva. 

Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

Gefa ráð 

Hún segir að sumu fólki finnist óþægilegt að tala við fjölmiðla og hafi óskað eftir ráðgjöf. „Ekki endilega til að svara fyrir þau heldur til að gefa þeim ráð,“ segir Eva. 

Hún veit ekki til þess að upplýsingafulltrúar hafi svarað hlutum fyrir hönd fólks sem haft er beint samband við í borgarkerfinu. „Við kannski lesum yfir málfar, eða hjálpum til við að útvega staðreyndir,“ segir Eva.  

Skrifstofur Reykjavíkurborgar.
Skrifstofur Reykjavíkurborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert