Dæmdur fyrir að nauðga þroskahömluðum manni

Landsréttur dæmdi mann í 15 mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir að …
Landsréttur dæmdi mann í 15 mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir að hafa kynmök við þroskahamlaðan mann gegn vilja hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur dæmdi í dag karlmann til 15 mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundinnar að fullu í ljósi þess langa dráttar er orðið hefði á málinu án viðhlítandi skýringa. Þyngdi rétturinn þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. maí sem hljóðaði upp á átta mánaða fangelsi, þar af fimm mánuði skilorðsbundna.

Voru málavextir þeir að ákærða, X, var gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa tvívegis haft kynferðismök við A, sem er þroskahamlaður, og hafi ákærði þar með nýtt sér yfirburðastöðu sína gegn honum þar sem A hefði ekki getað skilið þýðingu verknaðarins.

Var brotum X lýst í tveimur töluliðum ákæru, var þar annars vegar, í þeim fyrri, um að ræða ætlað brot í vinnubifreið sem ákærði hafði til umráða og var honum gefið að sök að hafa haft endaþarmsmök við A í bifreiðinni.

Ákært fyrir báðar málsgreinar 194. gr. alm.hgl.

Hins vegar sneri ákæran, síðari töluliðurinn, að endaþarmsmökum sem ákærða var gefið að sök að hafa haft á heimili sínu við brotaþola og haldið háttseminni áfram þrátt fyrir að A hefði beðið hann að láta af henni. Var háttsemi X í ákæru talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, þar sem fyrrnefnda málsgreinin fjallar um nauðgun almennt sem refsiverða háttsemi, en sú síðari kveður á um að það teljist einnig nauðgun að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök.

Í dómi héraðsdóms var X sýknaður af broti því sem fyrri töluliður ákærunnar fjallaði um en sakfelldur fyrir brotið í öðrum tölulið. Þar var brotið þó aðeins talið gegn 2. málsgrein 194. greinar, ekki 1. málsgreininni.

Undi ákæruvaldið þeirri niðurstöðu hvað fyrri tölulið ákæru snerti en krafðist þess fyrir Landsrétti að X yrði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem síðari töluliður ákæru greindi og háttsemi hans heimfærð undir 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, ekki 2. mgr. eingöngu.

Ákæruvald ekki sýnt fram á ásetning

Taldi Landsréttur hins vegar að ákæruvaldið hefði ekki axlað þá sönnunarbyrði, sem á því hvíldi samkvæmt lögum um meðferð sakamála, að sýna fram á ásetning X til nauðgunar samkvæmt fyrri málsgrein 194. greinar og þar með að verknaður hans teldist saknæmur. Var því ekki fallist á að X hefði gerist sekur um brot gegn téðri málsgrein og sýknudómur héraðsdóms staðfestur.

Staðfesti Landsréttur enn fremur áfellisdóm héraðsdóms hvað síðari málsgrein 194. greinar snerti og taldi refsingu X hæfilega ákveðna 15 mánaða fangelsi. Hins vegar skyldi refsing hans skilorðsbundin að öllu leyti, sem fyrr segir vegna þess dráttar sem orðið hefði á málinu og ekki hefðu fengist viðhlítandi skýringar á.

Miskabætur úr hendi X til A töldust hæfilega ákveðnar 1,8 milljónir.

mbl.is