Mögulegt söluverð ekki talið hafa þýðingu

Arnar Þór Stefánsson lögmaður sést hér fara yfir dóminn ásamt …
Arnar Þór Stefánsson lögmaður sést hér fara yfir dóminn ásamt Sigurði Valtýssyni, sem er einn eigenda Frigusar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mögulegt söluverð sem sett var fram við meðferð dómsmáls sem félagið Frigus II ehf. höfðaði gegn íslenska ríkinu og Lindarhvoli ehf. vegna sölu þess síðarnefnda á hlut ríkisins í Klakka, var ekki talið skipta máli við úrlausn dómsmálsins. Meðal annars hafði komið fram í máli fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málefni Lindarhvols að hægt hefði verið að fá 530 milljónir meira fyrir eignina en ríkið fékk.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtur hefur verið á heimasíðu dómstólsins. Var niðurstaða héraðsdóms að sýkna ríkið og Lindarhvol af öllum kröfum Frigusar, sem hafði í aðalkröfu sinni farið fram á um 650 milljónir í bætur.

Lind­ar­hvoll hafði til sölumeðferðar hlut rík­is­ins í Klakka ehf. og skulda­kröf­ur, en Frigus II ehf. var einn þriggja aðila sem lögðu fram kauptil­boð í eign­ina. For­svars­menn fé­lags­ins töldu sig hafa lagt fram hæsta til­boðið og þannig hefði fé­lagið verið hlunn­farið í sölu­ferl­inu þegar til­boði ann­ars fé­lags, BLM fjár­fest­inga ehf., var tekið. Var forsvarsmaður BLM fyrrverandi framkvæmdastjóri Klakka.

Tilboð Frigusar var hins vegar ekki sett fram af Frigusi heldur af Kviku banka. Var í engu getið að það væri fyrir hönd annars aðila, þótt baksamningur hafi verið gerður á milli bankans og Frigusar. Í dóminum segir að ekki verði séð að baksamningurinn hafi veitt Frigusi sjálfstæð réttindi eða réttarstöðu, en Kvika seldi svo þau réttindi sín áfram með samningi í september 2020. Er í dóminum vísað til upphaflegs samnings Kviku og Frigusar þar sem segir að réttindi Frigusar vegna tilboðsins virkist aðeins ef tilboðinu er tekið.

Aðalkröfu og varakröfu hafnað

Frigus getur því „ótvírætt ekki gengið inn í möguleg réttindi Kviku“ og er niðurstaða dómsins að hafna beri aðalkröfu og varakröfu Frigusar sökum aðildarskorts, en í þeim kröfum var vísað til tapaðra hagsmuna Frigusar. Hins vegar féllst dómurinn á að taka til skoðunar þrautavarakröfu Frigusar, en þar var farið fram á að taka fyrir skaðabótakröfu sem nemi missi hagnaðar sem Kvika hefði mögulega notið ef tilboði þess hefði verið tekið.

Í dóminum er vísað til þess að bráðabirgðaákvæði hafi verið sett í lög um Seðlabankann varðandi starfsemi Lindarhvols, en þar segir m.a. að Lindvarhvoll ætti að „leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar.“

Nafnverð eða núvirðing á tilboðum?

Frigus taldi að meta hefði átt tvö önnur tilboð sem bárust í Klakka ógild þar sem þau hafi farið á svig við skilmála söluferlisins. Var það vegna fyrirvara sem Frigus taldi ólögmæta um staðfestingu Fjármálaeftirlitsins auk þess að Lindarhvoll hafi samþykkt seljandalán til BLM eftir kaupin.

Dómurinn féllst á skýringar ríkisins og Lindarhvols um að salan hafi falið í sér gera hefði mátt ráð fyrir lögbundinni málsmeðferð af hálfu. Er m.a. vísað til þess að viðskiptin feli í sér óbein viðskipti með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki.

Frigus gerði í málinu einnig athugasemdir við að stjórn Lindarhvols hefði ekki horft til þess að núvirða tilboðin miðað við tiltekinn afhendingardag, en notast var við nafnvirði tilboðanna. Segir í dóminum að ekki verði fallist á að tilboð Kviku hafi talist það hagstæðasta sökum þessa né að sýnt hafi verið fram á að forsendur núvirðisútreikninga eigi við.

„Fellst dómurinn  því  á  það með stefndu að sú ákvörðun stjórnar Lindarhvols að miða aðeins við nafnvirði tilboða verði að teljast hafa verið málefnaleg og eðlileg nálgun og þar reyndist tilboð Kviku einfaldlega vera lægra en hæsta tilboðið frá BLM  er var síðan tekið,“ segir í dóminum.

Nýtt samkomulag við BLM ekki talið breyta tilboðinu

Einnig er tekið fram í dóminum að samkomulag Lindarhvols við BLM, eftir að tilboði BLM var tekið, um greiðslu vaxta geti ekki talist fela í sér breytingu á tilboði. Þó tekur dómurinn fram að telja verði það sem annmarka að ekki hafi verið getið sérstaklega um slíkt fyrirkomulag í söluskilmálum.Sérstaklega er þó tekið fram að slíkt hafi að mati dómsins ekki verulega þýðingu í málinu.

Í samræmi við stefnu stjórnar Lindarhvols

Í málinu var einnig tekist á um athafnir Stein­ars Þórs Guðgeirs­son­ar, stjórn­ar­manns í Klakka og eins kon­ar fram­kvæmda­stjóra Lind­ar­hvols á þess­um tíma. Var hann einnig verjandi ríkisins og Lindarhvols í þessu máli. Byggði Frigus á því að Lindarhvol hefði farið á svig við lög og reglur, m.a. fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði. Byggði Frigus á því að ekki hafi gætt áskilnaðar um jafnræði og gagnsæi í söluferlinu og sagði að stjórn Lindarhvols, með fulltingi ráðgjafa sinna hjá Íslögum (þar sem Steinar Þór starfar) hafi hagað umræddu söluferli í bága við lög og reglur þannig að Kvika hafi staðið höllum fæti í söluferlinu. Er m.a. vísað til að ekki hafi verið brugðist við því að mögulegir kaupendur höfðu ólíkt aðgengi að fjárhagsupplýsingum um Klakka. Litlar upplýsingar hafi verið látnar í té í söluferlinu, söluskilmálar verið óskýrir og misvísandi, farið á svig við hæfisreglur, stjórn ekki lagt fullnægjandi mat á framkomin tilbið og framkvæmdin ófullnægjandi.

Steinar Þór Guðgeirsson
Steinar Þór Guðgeirsson mbl.is/RAX

Í dóminum er farið yfir það hvernig stjórn Lindarhvols hafi markað sér þá stefnu í söluferlinu sem best var talin falla að markmiðum laganna. Var það að hafa opið söluferli án tilgreindra skilyrða þar sem Lindarhvoll myndi útvega bjóðendum upplýsingar um söluferlið, en aðeins takmarkaðar grunnupplýsingar um hið sela, þ.e. um umrætt hlutafé í Klakka og hlut í nauðasamningskröfu á hendur því félagi. Segir í dóminum að stjórnarmenn í Lindarhvoli hafi sjálf virst hafa takmarkaðar fjárhagsupplýsingar eins og flestir aðrir um eignina.

Þá hafi einnig rík áhersla verið lögð á hagkvæmni þess að losa fjármagn sem fyrst.

Dómurinn taldi nálgun Lindarhvols hafa verið í samræmi við ákvæði í samningi þess við ráðherra, þó það kunni vissulega að vera áhorfsmál hvort Lindarhvoll hefði þó átt að reyna að afla frekari upplýsinga og koma á framfæri, sérstaklega með hliðsjón af því að vissir bjóðendur kynnu að búa fyrir meiri upplýsingum en aðrir, þá einkum fyrrverandi stjórnendur Klakka.

Dómurinn fellst ekki heldur á að skylda hafi hvílt á Lindarhvoli að ganga lengra varðandi það að afla upplýsinga og dreifa þeim til bjóðenda vegna þessa.

Hafna því að Steinar Þór hafi farið á svig við reglur

Sérstaklega er tekið fram að ekkert hafi komið fram sem segi að stjórnsýslulög hafi átt að gilda um söluferlið eða störf Lindarhvols eða að um eiginlegar stjórnvaldsákvarðanir hafi verið að ræða. Þá var því hafnað að lög eins og lög um opinber innkaup eigi við söluferlið.

Bráðabirgðaákvæðið í lögum um Seðlabankann eigi hins vegar við í málinu eins og áður hefur komið fram. Benti Frigus á að erfitt hafi verið að eiga í samskiptum við lögmannsstofuna Íslög vegna málsins og þá hafi Steinar Þór átt sæti í stjórn Klakka. Benti Frigus á að fyrirsvarsmaður BLM, sem Steinar Þór mælti síðan með tilboði frá, hafi verið framkvæmdastjóri Klakka og taldi Frigus að hann hafi með framgöngu sinni farið á svig við reglur Lindarhvols um sérstakt hæfi og haft óeðlileg afskipti af ákvörðunum Lindarhvols í söluferlinu og haldið fram tilboði BLM við stjórnina.

Þessu hafnar dómurinn og segir að ekki hafi verið sýnt fram á nein hagsmunatengsl Steinars Þórs og fyrirsvarsmanna BLM. Vísað er til þess að Steinar sjálfur og fyrirsvarsmaðurinn hafi sagst þekkjast lítillega í gegnum störf sín, en að öðru leyti ekki. Því segir dómurinn ekki hafa verið farið á svig við reglur um hæfi. Þá hafi stjórnarmeðlimir einnig borið vitni um að stjórnin hefði almennt lagt sjálfstætt mat á framkomin tilboð og tekið ákvörðun út frá því viðmiði og einfaldlega tekið hæsta tilboðinu og að miðað hafi verið við hæsta nafnverðstilboð.

Telur dómurinn heldur ekki hægt að finna að ferlinu sem Lindarhvoll ákvað að viðhafa með rafrænum samskiptum sínum í söluferlinu sem átti að ná til allra. Þá er vísað í skýrslu ríkisendurskoðanda frá árinu 2020 sem birt hefur verið um söluna. Þar kom fram að eðlilega virðist hafa verið staðið að sölunni með tilliti til settra markmiða og tíðkanlegrar framkvæmdar.

Vangaveltur um hærra verð hafa ekki sérstaka þýðingu

Það vakti talsverða athygli þegar Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, bar vitni í málinu og sagði að hluturinn hafi verið seldur á talsverðu undirverði, eða um 530 milljónum undir eðlilegu markaðsverði.

Dómurinn tók ekkert undir þessi sjónarmið og áréttar í dóminum að allar vangaveltur um mögulegt söluverð eigi ekki við í málinu. „Vangaveltur um að mögulega hefði verið unnt að selja umrædd verðmæti á enn hærra verði en gert var geta að mati dómsins ekki talist hafa sérstaka þýðingu í þessu máli og telur dómurinn framkomin sjónarmið og vitnisburði um slíkt því vera úrlausn þessa tiltekna máls óviðkomandi.“

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi.
Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert