„Svona gera forsetar nú bara víst“

Forsetinn endurgerði myndina frægu.
Forsetinn endurgerði myndina frægu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Til er þröngsýnt fólk í þessum heimi sem segir að svona eigi forsetar ekki að gera. Svona gera forsetar nú bara víst,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann klæddi sig í mislitt sokkapar og endurgerði myndina frægu sem fór sem eldur um sinu internetsins fyrir nokkrum árum.

Myndin vakti athygli á sínum tíma um allan heim.
Myndin vakti athygli á sínum tíma um allan heim.

Á Bessastaði var Downs-félagið mætt til þess að gefa forsetanum téð sokkapar og tvo boli sem hannaðir voru fyrir alþjóðlega Downs-daginn á þriðjudaginn næsta. Þær Arna Dís og Katla Sif, sem báðar eru með Downs-heilkennið, nutu þess heiðurs að gefa forsetanum bolina, sem þær tvær prýða.

Bolurinn er hannaður í tilefni downs dagsins.
Bolurinn er hannaður í tilefni downs dagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður vel. Þetta eru litríkir, fallegir og þægilegir sokkar,“ sagði forsetinn þegar mbl.is náði tali af honum.

„Ég er nú ekki alltaf í svona glæsilegum sokkum, en þegar tilefni gefst til þá veitir það manni gleði. Hví ekki að kýla á það.“

Lét grínið sem vind um eyru þjóta

Árétti Guðni því næst gagnrýni fólks á myndina gömlu.

„Það er alltaf þannig að það er til fólk sem misskilur táknrænan stuðning. Það efldi mig bara til dáða, þegar fólk var að gera grín. Ég lét það sem vind um eyru þjóta og þykir hallærislegt að fólk sjái ekki mikilvægi þess að geta stutt við góðan málsstað.“

Arna Dís, Katla Sif, Jón Árni ásamt forsetanum.
Arna Dís, Katla Sif, Jón Árni ásamt forsetanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einstaklingum sem fæðast með Downs-heilkennið hefur farið fækkandi síðustu ár, eftir að skimun við meðgöngu tók miklum framförum.

„Þeim hefur snarfækkað á Íslandi sem fæðast með Downs-heilkenni, vegna framfara í skimun. Ég tel brýnt að foreldrar hverju sinni geti tekið sína eigin upplýstu ákvörðun í þeim efnum,“ sagði Guðni og kvaðst telja mikilvægt að upplýsingagjöf um heilkennið skyldi hlutlæg.

„Það má aldrei verða svo að skilaboð til foreldra sé á þá leið að einstaklingur með Downs-heilkenni eigi ekki bjart líf fyrir höndum, því sú er alls ekki raunin.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
Forsetinn fékk nýja sokka að gjöf.
Forsetinn fékk nýja sokka að gjöf. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is