„Þarna eyddum við öllum okkar frístundum“

Bústaðurinn brann til grunna.
Bústaðurinn brann til grunna. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er auðvitað áfall. Þarna eyddum við öllum okkar frístundum í meira en tíu ár og miklum fjármunum. Það er mikil eftirsjá að húsinu, sem foreldrar mínir byggðu,“ segir Gréta Ingþórsdóttir í samtali við mbl.is, en hún og fjölskylda eru eigendur bústaðsins við Apavatn sem brann til kaldra kola í morgun.

„Maður veit ekki einu sinni hvernig þetta gerðist, það er bara verið að rannsaka það,“ segir hún en bætir við að eyðileggingin sé algjör. „Það er ekkert eftir.“

Að því sögðu segir hún að það gæti verið verra. Enginn hafi hlotið skaða af og vonandi sé hægt að bæta tjónið. „Þetta gæti verið verra. Það slasaðist enginn.“

Reykjarmökkinn bar við himin.
Reykjarmökkinn bar við himin. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert meira að gera í bili

 „Brunabótamatið er auðvitað langt undir raunvirði. Vonandi að við fáum eitthvað upp í nýtt hús,“ segir hún spurð hvort það liggi fyrir hversu mikið verði bætt. Aðspurð jánkar hún því að fjölskyldan hyggist byggja nýjan bústað.

„Allavega í augnablikinu stefnir hugurinn þangað. Þetta er dásamlegur staður, okkur langar til þess að eiga áfram athvarf þarna.“

Gréta Ingþórsdóttir.
Gréta Ingþórsdóttir. Pall Gudjonsson

Fjölskyldan fór upp eftir strax í morgun þegar lögregla gerði þeim viðvart. „Við vorum þarna á meðan slökkviliðið var að vinna og svo kom náttúrlega lögreglan,“ segir Gréta en kveðst ekki vita hvernig rústirnar verði fjarlægðar.

„Ég veit ekki hvernig það fer fram. Það er búið að tala við tryggingarnar. Ég held það sé ekkert meira fyrir okkur að gera í bili.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is