„Þátttaka í ríkisstjórn kostar ávallt sitt“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stappaði stálinu í samflokksmenn sína á landsfundi …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stappaði stálinu í samflokksmenn sína á landsfundi Vinstri grænna í dag. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Þegar á móti blæs og við sitjum undir árásum er ágætt að hafa það hugfast að andstæðingar okkar vilja auðvitað komast í ríkisstjórn, gera sín eigin stefnumál að veruleika. Um það snúast stjórnmál.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er hún ávarpaði landsfund Vinstri grænna í Hofi á Akureyri í dag.

Ráðherrann sagði alltaf hætta á þreytu þegar flokkar hafa verið lengi við stjórnvölinn. Flokkurinn væri ekki að mælast hátt í skoðanakönnunum og mótvindurinn um þessar mundir væri allnokkur.

„En mótvindur gefur okkur samt tækifæri alveg eins og þegar við erum í langri göngu að staldra við, íhuga stöðuna, finna bestu leiðina fram á við og halda ótrauð áfram,“ bætti hún við er hún stappaði stálinu í samflokksmenn sína.

Segir Seðlabankann hafa staðið vaktina

Katrín gerði verðbólguna einnig að umtalsefni og kom m.a. fram í máli hennar að á næstu dögum verði kynnt fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram í þeim tilgangi að verja almannaþjónustuna og afkomutryggingakerfin. 

Ráðherrann segir það þó ekki eingöngu verkefni ríkisins og sveitarfélaga að aðlaga stefnu sína að þeirri stöðu sem nú sé komin upp. Baráttan við verðbólguna snúi að okkur öllum.

Þá þykir Katrínu það hafa verið farsæl lausn hjá verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum að semja til skamms tíma við núverandi aðstæður. 

„Fram undan eru svo vandasamar kjaraviðræður þegar samningum sleppir. Það sem miklu skiptir að stuðla að lágri verðbólgu áfram en tryggja réttlátan hlut launafólks í þeim efnahagsbata sem náðst hefur á undanförnum árum.“

Þó svo að vinsælt sé að gagnrýna Seðlabankann segir hún bankann hafa staðið vaktina og beitt þeim stýritækjum sem hann hefur til að ná tökum á verðbólgunni og hvetja til sparnaðar.

Þá segir hún eigendur fyrirtækja sem greiða sér háan arð á þessum tímum vera að hella olíu á verðbólgubálið.

„Þetta fólk getur ekki gengið svo fram og látið eins og þau sem lægst hafa launin eigi ein að bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika. Þannig verður það ekki, því get ég lofað. Því við munum með samstilltu átaki ná verðbólgunni niður og í kjölfarið munu vextir lækka.“

„Vilja allt til vinna að komast í ríkisstjórn“

Þá sagði Katrín Vinstri-græna hafa reynslu af því að hafa áhrif í stjórnarandstöðu. „Við kunnum þann slag nokkuð vel.“ Aftur á móti sé hægt að hafa enn meiri áhrif í ríkisstjórn.

„Og fyrir hreyfingu sem drifin er áfram af hugsjónum, sem leggur ómælda vinnu í að leggja okkur línur og að móta stefnu, þá skiptir auðvitað máli að hrinda hugsjónunum í framkvæmd, að sjá stefnumálin verða að veruleika. Við vitum að nái okkar stefna fram að ganga þá gerum við samfélagið okkar betra, manneskjulegra, fjölbreyttara og umburðarlyndara.

Þegar á móti blæs og við sitjum undir árásum er ágætt að hafa það hugfast að andstæðingar okkar vilja auðvitað komast í ríkisstjórn, gera sín eigin stefnumál að veruleika. Um það snúast stjórnmál. Þess vegna eru orðaskiptin ekkert alltaf málefnaleg, þess vegna er ýmsu haldið fram sem er hreinlega ekki satt. Vegna þess að það er barist um þessi völd og það er barist harkalega um þau.“

Katrín sagði þá aðra stjórnmálaflokka „skila auðu“ í mörgum af mikilvægustu áskorunum samtímans og treysta á að pólitísk umræða snúist aðeins um þau mál sem þeir vilja ræða, „eða það sem verra er, að þau snúist bara um ímynd og aukaatriði.“

„Við í þessari hreyfingu vitum að það eru engin einföld svör við þeim flóknu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við erum stödd á ótrúlegum umbrotatímum, hvort sem horft er á loftslagsbreytingar eða tæknibreytingar sem eru að verða á ógnvænlegum hraða. Okkar hlutverk í stjórnmálum er að tryggja að þessi umskipti sem við erum stödd í verði réttlát og sanngjörn fyrir okkur öll.“

Einkaaðilar greiði fyrir afnot af auðlindum

Þá vék forsætisráðherra ræðu sinni einnig að loftslagsmálefnum. Telur hún mikilvægt að í stjórnarskrá verði ákvæði sem kveði skýrt á um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum og tryggi sjálfbæra nýtingu þeirra.

„Við þurfum líka að huga að tilgangi orkuframleiðslunnar. Hún á að vera í þágu innlendra orkuskipta, ekki í þágu útflutnings og það þarf að setja skýrar leikreglur. Fátt hef ég meira hugsað en þá forréttindastöðu sem við erum í, að orkufyrirtæki landsins eru flest í almannaeigu og flutningsnetið er í almannaeigu.“

Og þannig vill Katrín halda því.

„Fari fram einhver uppbygging hins vegar af hálfu einkaaðila þá þurfa auðvitað að vera skýrar leikreglur. Þeir þurfa að greiða gjöld af nýtingu á sameiginlegri auðlind og þar skiptir gríðarlegu máli að leikreglurnar séu ákveðnar áður en nokkuð er aðhafst. Leikreglurnar þurfa að liggja fyrir áður, annars munum við lenda í vanda. Þetta skiptir máli áður en lagt er af stað.“

Katrín vill að þessi gjöld renni fyrst og fremst í ríkissjóð. 

Vilja breyta stjórnarskrá í áföngum

Hvað stjórnarskrána varðar telur Katrín stjórnmálaflokka á Íslandi fasta í gömlum skotgröfum. Annars vegar eru þeir sem vilja aðeins og eingöngu drög stjórnlagaráðs í þeirri mynd sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skilaði þeim af sér í mars 2013, og hins vegar þeir sem vilja helst engar breytingar og gleðjast yfir ósveigjanleika hinna fyrrnefndu.

„Við í Vinstri-grænum erum löngu búin að segja að við viljum breyta stjórnarskránni í áföngum. Við vitum að í þessu máli er engin einföld lausn. Og ég mun gera aðra atlögu að því að leggja fram tillögur um breytingar á þessu kjörtímabili. Ég veit að ég á stuðningsmenn í einhverjum öðrum flokkum og ég vona að fleiri flokkar treysti sér til að koma í þá vegferð með okkur. Því það er í raun og veru ekki annað en hneyksli að við séum ekki búin að ganga frá þessum málefnum í stjórnarskrá lýðveldisins.“

„Ég þarf ekki að útskýra það hér

Þá þakkaði hún fyrir stuðninginn undir lok ræðunnar og ítrekaði mikilvægi þess að taka höndum saman þegar á móti blæs.

„Þátttaka í ríkisstjórn kostar alltaf sitt, ég þarf ekki að útskýra það hér í þessum hóp. Ekki síst þegar að við erum ósammála og einhver er að yfirgefa okkur þá fæ ég þá spurningu „er þetta þess virði?“ Ég skil það alveg að það sé spurt að þessu, það er ekki nema eðlilegt þegar við höfum verið lengi í ríkisstjórn. En miklu oftar, miklu miklu oftar, fæ ég símtöl, stuðning, bréf, sms, samtöl á förnum vegi, frá félögum, kjósendum, fólki sem öll eiga það sameiginlegt að vilja að við í Vinstri grænum séum í þessari stöðu og öxlum þessa ábyrgð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina