Hleypur í sex klukkutíma fyrir Píeta

Börkur Reykjalín Brynjarsson, til hægri, á hlaupum.
Börkur Reykjalín Brynjarsson, til hægri, á hlaupum. Ljósmynd/Aðsend

Börkur Reykjalín Brynjarsson utanvegahlaupari lagði af stað í morgun í sex klukkutíma hlaup í Mosfellsbæ.

Hlaupið fer hann árlega til styrktar Píeta-samtökunum. Blíðskaparveður er í Mosfellsbæ í dag og á annað hundrað hlauparar hafa hlaupið með Berki í morgun, að því er segir í tilkynningu.

Hvatinn af þessum árlega viðburði hjá Berki er að hann á tvo vini sem hafa framið sjálfsvíg. Fyrir nokkrum árum átti hann síðan samtal við vin sinn sem var kominn á þann stað að telja dætrum sínum betur borgið í lífinu ef hann væri ekki til staðar.

Ljósmynd/Aðsend

„Þá áttaði ég mig á því að þetta var ekki svona einfalt. Þessi vinur minn er sá sem ég get best hallað mér upp að ef ég er í andlegum vanda og hefur unnið við sjúkraflutning, komið að sjálfsvígum og talað fólk úr sjálfsvígum og hefur mikla reynslu af sálfræðilegum fræðum. Þegar svona maður er kominn á þann stað að vera búinn að ákveða stað og stund og útvega sér það sem þarf, þá er þetta líklega eins alvarlegur sjúkdómur og hægt er að hugsa sér,” sagði Börkur í færslu um viðburðinn fyrr í vikunni.

Ljósmynd/Aðsend

Meðalfjöldi sjálfsvíga síðustu tíu ára eru 40 á ári, sem þýðir að einn fremur sjálfsvíg á níu daga fresti, að því er segir í tilkynningunni.

Hér er hægt að styðja viðburðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert