„Hundalíf að vera án mannréttinda“

Sigríður Jónsdóttir hafði betur gegn Bláskógabyggð.
Sigríður Jónsdóttir hafði betur gegn Bláskógabyggð. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur dæmt Bláskógabyggð að greiða Sigríði Jónsdóttur kennara eina milljóna króna í miskabætur vegna ólögmætrar áminningar og uppsagnar. 

Í málinu krafðist Sigríður fjögurra milljóna í miskabætur auk tæpra 35 milljóna króna í skaðabætur vegna atvinnutjóns, en þeirri kröfu var vísað frá vegna vanreifunar. Einnig krafðist Sigríður þess að áminning sem hún fékk árið 2016 og uppsögn sem hún fékk í kjölfar áminningarinnar yrðu dæmdar ógildar. 

Færði ekki næga sönnun

Sigríður var áminnt fyrir „ámælisverða háttsemi á kennarafundi“. Henni var síðan sagt upp í kjölfar þess að hún skrifaði grein í tímarit. Skólastjóri taldi greinina fela í sér grófar ásakanir á hendur samstarfsmanna.

Landsréttur telur greinina rúmast innan tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og voru áminningin og uppsögnin því dæmdar ólögmætar. Auk þess telur Landsréttur að skólastjórinn hafi verið vanhæfur í skilningi stjórnsýslulaga til að taka ákvörðun um uppsögnina.

Ásamt því að greiða Sigríði miskabætur þarf sveitarfélagið að greiða 5.800.000 krónur í málskostnað.

„Til hamingju Ísland“

Sigríður greinir frá dómnum á Facebook-síðu sinni.

Enginn lifir án peninga en það er líka hundalíf að vera án mannréttinda, en þau hef ég nú endurheimt. Samkvæmt Landsrétti er tjáningarfrelsi á Íslandi. Til hamingju Ísland,“ skrifar Sigríður.

mbl.is

Bloggað um fréttina