Tveir fluttir á sjúkrahús eftir snjóflóðið

Björgunarsveitarfólk að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarfólk að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Óttar

Sjö manna skíðahópur komst í háska vegna snjóflóðs í Brimnesdal í Ólafsfirði í dag. Flestir úr hópnum sluppu óslasaðir en tveir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Sjúkraflutningamenn á Tröllaskaga komu á vettvang tveimur klukkustundum eftir að útkallið barst. Er þeir mættu á vettvangt kom í ljós að einn úr hópnum var fótbrotinn og annar með meiðsli á hné. Báðir aðilar voru fluttir með sjúkrabíl til Akureyrar.

Óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar en ekki tókst að nota hana til björgunarstarfa vegna veðurs.

„Svæðið er hættulegt“

Samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra og að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, gengu björgunaraðgerðir vel fyrir sig. 

Báðir aðilar vara við viðvarandi snjóflóðahættu á svæðinu og segja varhugavert að vera þar á ferli, en björgunarfólk varð vart við fleiri snjóflóð í nágrenninu á meðan á aðgerðum stóð í dag. 

„Svæðið er hættulegt" segir Jón Þór í samtali við mbl.is. Hann ítrekar viðvaranir sem Veðurstofa, lögregla og björgunarsveitir hafa gefið frá sér um svæðið. 

mbl.is