0,7% skiluðu auðu í formannskjöri VG

Landsfundur VG stendur þétt við bakið á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Landsfundur VG stendur þétt við bakið á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkuð mjótt var á munum í kosningu gjaldkera og ritara VG í gær. Innan við eitt prósent kjósenda skilaði auðu um embætti formanns þar sem Katrín Jakobsdóttir var ein í framboði.

Eins og mbl.is greindi frá í gær voru þau Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir og Steinar Harðarson kjörin í embætti ritara og gjaldkera af landsfundi. 

Líf Magneudóttir naut stuðnings 41% landsfundar

Jana Salóme var kjörin með 57,6% greiddra atkvæða en mótframbjóðandi hennar, Sigríður Gísladóttir, hlaut 41.8% kosningu. 

Líf Magneudóttir bauð sig fram gegn Steinari Harðarsyni en hlaut 40,9% kosningu gegn 54,7%. 4,4 skiluðu auðu. 

Þetta kemur fram í uppfærðri tilkynningu á vef Vinstri grænna. 185 manns voru á kjörskrá og meginþorri þeirra greiddi atkvæði á fundinum í gær.

2,5% skiluðu auðu í stað þess að kjósa Guðmund

Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson voru ein í framboði til embættis formanns og varaformanns. 2,5% skiluðu auðu í stað þess að kjósa Guðmund og 0,7% í tilfelli formanns.

Í kjöri til meðstjórnar greiddu 85,2% Elínu Björku Jónsdóttur atkvæði. Næst á eftir komu Maarit Kaipainen með 74,1%, Pétur Heimisson 73,5%, Sigríður Gísladóttir 72,8%, Óli Halldórsson 61,7%, Hólmfríður Árnadóttir 61,7% og Andrés Skúlason með rétt ríflega helming, 55,6%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert