Bauluðu á prestinn

Frá Kúamessunni í kvöld.
Frá Kúamessunni í kvöld. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Tíminn verður að leiða í ljós hvaða áhrif það hefur á nytina í kúnum í Gunnbjarnarholti að þangað voru komin um 200 manns til að hlýða á messu fyrr í kvöld.

Það var ekki langt liðið á messuna þegar þær hófu að baula á prestinn, sem mátti sín lítils þrátt fyrir sterka rödd og tilþrif við messusönginn. Ró komst þó fljótt á messugestina, sem ekki voru allir úr dýraríkinu, heldur mannfólk úr mörgum sóknum. 

Var það margt langt að komið til að hlýða á Guðsorðið, allt neðan af Eyrarbakka, austan úr Holtum, utan úr Tungum og svo vissulega flest úr sókn séra Óskars í Hruna, sem nær yfir Hrunamannahreppinn og Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Þessi óvenjulega staðsetning virtist því vel til fundin til að koma boðskapnum að á fallegri kvöldstund í blíðuveðri, sem oft er á þessum slóðum.

Kýrnar hikuðu ekki við að baula á prestinn.
Kýrnar hikuðu ekki við að baula á prestinn. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

„Guð blessi hús og fjós“

Sóknarpresturinn í Hruna, séra Óskar H. Óskarsson vék enda að sköpunarverkinu í orðum sínum í predikun sinni og ábyrgð okkar þar að umgangast hvert annað, dýrin og náttúruna af virðingu.

„Því allt er af sömu rótum – sköpun Guðs. En kúamessan minnir okkur líka á að kirkjan er ekki bara að störfum í  kirkjubyggingunum okkar fallegu – heldur á kirkjan samleið með fólkinu þar sem það er og starfar. Og í kvöld innan um kýr! Guð blessi hús og fjós – fólk og skepnur," sagði sérann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina