Ekkert vandamál versnar við að hreyfa sig

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi verðlaun eru mér hjartans mál en markmiðið er að efla lýðheilsu landsmanna og vekja athygli á henni í víðum skilningi,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, en hann hefur kynnt ný verðlaun, Íslensku lýðheilsuverðlaunin, sem efnt er til í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Geðhjálp og Íþrótta- og ólympíusamband Íslands. 

„Átt er við hvort tveggja, andlega og líkamlega vellíðan, og hugmyndin er að þakka þeim sem þau hljóta fyrir vel unnin störf og hvetja almenning til dáða. Ég lít á þetta sem vörðu á þeirri leið að bæta heilsu landsmanna í sál og sinni,“ segir Guðni. 

Að áliti forsetans er lýðheilsa eitt af mikilvægustu málefnum þessarar aldar, bæði hér heima og erlendis. „Heilbrigðiskerfið á Íslandi er undir miklu álagi og við munum aldrei ná því markmiði að tryggja og bæta heilsu og líf sem flestra ef við erum aðallega í því að bregðast við. Það er ekki þannig á öllum sviðum þjóðfélagsins að forvirkar aðgerðir séu litnar jákvæðum augum en það á svo sannarlega við þegar heilsa er annars vegar. Lýðheilsa er forvirk aðgerð hvers og eins og samfélagsins í heild sinni til þess að láta okkur líða betur. Hvert getur verið æðra markmið en það?“

Forsetinn leggur áherslu á, að ekki sé verið að horfa til útlits í þessum efnum. „Útlitsdýrkun er í sjálfu sér lýðheilsuvandamál og fjarri því sem við stefnum að með þessum verðlaunum. Allt er gott í hófi,“ segir hann.

Guðni á ferðinni í forsetahlaupi ÍSÍ í fyrrasumar.
Guðni á ferðinni í forsetahlaupi ÍSÍ í fyrrasumar.


Vill leggja sitt af mörkum

Sjálfur reynir Guðni að hreyfa sig sem mest. „Ég vil leggja mitt af mörkum í þessu embætti og jafnvel ganga, hjóla eða hlaupa á undan með góðu fordæmi. Ég hef sjálfur fundið það á eigin skinni að mér líður betur á líkama og sál ef ég hreyfi mig. Ég hætti því miður allri íþróttaiðkun 15 eða 16 ára og það var ekki fyrr en eftir tvítugt að ég fór að hreyfa mig svo einhverju næmi á nýjan leik. Þá var ég í námi sem ég tók mjög alvarlega og fann að mér gekk betur að sitja yfir skræðunum ef ég fór annað slagið út að hreyfa mig. Ég veit ekki um það vandamál sem versnar við það að hreyfa sig. Seinna var ég mikið í ræktinni og komst á köflum í hörkuform. Það er löngu liðin tíð. Aðalatriðið er hins vegar að hver og einn sinni heilsunni á eigin forsendum og finni sína leið að bættri líðan. Hvað þykir okkur skemmtilegast og best?“ segir Guðni og bætir við að brýnt sé að samfélagið veiti fólki sem fjölbreyttust tækifæri.

Guðni viðurkennir að hann gegni ekki rólegasta embætti í heimi og stundum sé hann undir meira álagi en hann kysi. „Þá finn ég mjög vel hversu brýnt það er að ná að hlaða rafhlöðurnar og hvíla hugann með sundspretti, göngu úti í náttúrunni eða hlaupatúr.“

Nánar er rætt við forsetann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en ráðgert er að veita verðlaunin í fyrsta sinn í vor og er óskað tillagna frá almenningi um hverjir ættu að hljóta þessa viðurkenningu fyrir framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi. Almenningur er hvattur til að senda inn tillögur að verðugum verðlaunahöfum, ásamt rökstuðningi, á vefsíðunni lydheilsuverðlaun.is og rennur fresturinn út á mánudaginn. ­Dómnefnd mun fjalla um tillögurnar og tilnefna þrjár í hvorum flokki. Tvenn verðlaun verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í síðari hluta apríl.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »