Snjóflóðið var bæði stórt og breitt

Ferðir fólks geta gjarnan hleypt snjóflóðum af stað á svæðum …
Ferðir fólks geta gjarnan hleypt snjóflóðum af stað á svæðum þar sem snjólög eru óstöðug. mbl.is/Bjarni Helgason

„Þetta flóð í Brimnesdal var alveg þokkalega stórt,“ segir Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða hjá Veðurstofu Íslands, um snjóflóðið sem féll á Tröllaskaga í gær. „Það var alla vega breitt.“

Snjóflóðinu í Kistufjalli í Brimnesdal í gær var hleypt af stað af fólkinu sem var þar á ferð, að sögn Ólivers. Snjólög á Tröllaskaga hafa verið viðkvæm seinustu misseri vegna veðurfars og því geta ferðir fólks auðveldlega hrint snjóflóðum af stað. 

Hann segir að búist hafi verið við flóði á svæðinu þar sem mikið hafi verið um flóð á Tröllaskaga og Fjörðum við Eyjafjörð. Um miðja síðustu viku hafi verið talsvert um svokölluð náttúruleg flóð, sem verða til vegna veðurfars.

Hann minnist annars snjóflóðs í Fjörðum sem féll á dögunum vegna vélsleðaferða á svæðinu.

Þarf að halda áfram að fara varlega

Veðurstofan hefur á síðustu dögum biðlað til fólks að fara varlega á svæðinu, þar sem snjólög hafa verið óstöðug. Óliver segir að veikleikar í snjónum séu algengari þegar mikið sé um frost.

„Þessir veikleikar eru örugglega ennþá til staðar. Það er búið að vera áfram kalt og það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé búið. Fólk þarf að halda áfram að fara varlega," greinir hann frá. 

„Annars vegar falla snjóflóð gjarnan í vondum veðrum og það er mjög algengt en svo er það ekki eins algengt að það verði það sem kallast viðvarandi veikt lag,“ segir hann. „Þá er lag í snjónum sem bíður eftir að einhver komi á vélsleða eða skíðum og setji það af stað.“

Hann bætir við að engin hætta stafi af snjóflóðunum í byggð.

mbl.is