Styttist í opnun nýrra Garðheima

Nýtt hús Garðheima
Nýtt hús Garðheima mbl.is/Árni Sæberg

„Það er auðvitað allt á fullu þarna. Við erum svona svolítið að bíða eftir að fá veginn að húsinu,“ segir Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Garðheima, um nýtt hús verslunarinnar í Suður-Mjódd, sem farið er að taka á sig mynd.

Fyrsta skóflustungan var tekin fyrir sléttu ári og átti húsið að opna nú í vor. Aftur á móti mun opnun þess frestast, en framkvæmdirnar á bæði húsinu og veginum að því hafa tafist. Má þar helst um kenna kuldatíðinni í vetur og tafir á aðföngum, að sögn Kristínar.

„Þetta er mikið umhverfisvænni bygging. Við verðum til dæmis með …
„Þetta er mikið umhverfisvænni bygging. Við verðum til dæmis með veðurstöð uppi á þaki, sem mælir hitastig, birtustig og hvort það sé rigning eða ekki,“ segir Kristín Helga, framkvæmdastjóri Garðheima. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum að vonast eftir því að geta opnað núna í vor en við sjáum fram á það að við verðum að opna seinnipart sumars.“ Því er ljóst að hægt verður að kíkja í nýju verslunina fyrir haustplönturnar og jólatrén, en ekki sumarblómin.

Spurð hvað nýja byggingin muni koma til með að hafa fram yfir þá gömlu segir hún töluvert meira lagt upp úr hönnun og útliti þeirrar nýju en almennt tíðkast í sambærilegum mörkuðum erlendis, svokölluðum „gardencenters“.

„Við erum með stutt sumar, þeir [erlendis] eru með talsvert lengra sumar og geta selt útiplöntur töluvert lengur en við. Við hugsum þetta þess vegna aðeins öðruvísi og það er mikið meira lagt upp úr hönnun og útliti en gengur og gerist.

„Þannig þau sem eru í þessum bransa í Evrópu eru mjög spennt að sjá hvað við ætlum að gera,“ bætir Kristín við og segir að margir í bransanum hafi boðað komu sína á opnun hússins síðla sumars.

Byggingin verður alls 7.375 fermetrar, framleidd í Hollandi og einingarnar …
Byggingin verður alls 7.375 fermetrar, framleidd í Hollandi og einingarnar fluttar til landsins.

Safna regnvatni og gluggar opnast sjálfkrafa

Aðspurð jánkar Kristín því að Spíran, veitingastaður á efri hæð Garðheima, verði á sínum stað í nýju byggingunni. „Já, Spíran og Vínbúðin koma bæði með okkur. Þau verða á ennþá betri stað, nú getur fólk sest út og svo verður leiksvæði fyrir krakkana. Foreldrar geta setið bæði úti og inni og fengið sér kaffi meðan börnin leika.“

Margt verði því breytt á nýjum stað. Dæmi um það sé byggingin, sem mun koma til með að verða töluvert nútímalegri.

Framkvæmdir hafa gengið hratt fyrir sig, en svona var staðan …
Framkvæmdir hafa gengið hratt fyrir sig, en svona var staðan í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mikið umhverfisvænni bygging. Við verðum til dæmis með veðurstöð uppi á þaki, sem mælir hitastig, birtustig og hvort það sé rigning eða ekki.“

Veðurstöðin geti því sagt til um hvort þurfi að kveikja ljós inni í byggingunni eða ekki. „Svo þegar það er bjart úti, þá er kerfi til þess að við séum ekki að kveikja á óþarfa ljósum.“ Þá opnast gluggarnir sjálfkrafa ef hitastig hækkar.

„Síðan erum við að fara að safna regnvatni og vökvum plönturnar með því. Þannig það eru ýmsar byltingar og margt sem ekki hefur verið gert hérna heima.“

Þrátt fyrir að aðeins sé ár liðið frá fyrstu skóflustungu hefur verkefnið verið í kortunum í um sex ár, eða frá því ákveðið var að Garðheimar og aðrar byggingar í kring þyrftu að víkja fyrir íbúðarhverfi.

Upprunalega hafði fyrirtækið sótt um að fá að byggja nýja verslun að Stekkj­ar­bakka Þ73. Stóð sú umsókn yfir í þrjú og hálft ár, þar til borgin samþykkti að Garðheimar færu í Suður-Mjódd. 

„Það tók dágóðan tíma að finna réttu lóðina.“

mbl.is