25 sakborningar, 25 lögmenn og 1 dómari

Skemmtistaðurinn Bankastræti club var vettvangur árásarinnar.
Skemmtistaðurinn Bankastræti club var vettvangur árásarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bankastræti Club-málið svokallaða verður þingfest á morgun. Alls eru sakborningar 25 og hver þeirra er með einn lögmann á sínum snærum. Ingibjörg Þorvaldsdóttir dómstjóri segir fjölda sakborninga fordæmalausan í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Við þingfestingu er kallað eftir afstöðu sakborninga til sakargifta og því öllum gert að mæta fyrir dóm. Að lágmarki munu því 50 manns vera fyrir dómnum og eru þá ótaldir aðstandendur sem gætu komið til að fylgjast með.

Hleypt inn í hollum 

„Það hafa aldrei verið fleiri sakborningar í sögu Héraðsdóms Reykjavíkur,“ segir Ingibjörg.

Þingfesting fer fram í dómsal 101.
Þingfesting fer fram í dómsal 101. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingibjörg segir að ákveðið hafi verið að hleypa sakborningum inn í hollum vegna þessa. „Við komumst að þeirri niðurstöðu að ekki væri þörf á að hafa alla inni í einu,“ segir Ingibjörg.

Hún segir dómsal 101 rúmgóðan sal en engu að síður hafi komið til álita að koma upp fjarfundarbúnaði í dómsal 102 en síðar ákveðið að svo yrði ekki.

Hverjum og einum skipaður verjandi 

Ingibjörg segir að engar reglur séu þess efnis að lögmaður geti ekki verið með tvo skjólstæðinga á sínum snærum. Hins vegar hafi í þessu tilfelli hafi sakborningum verið úthlutað ólíkum lögmönnum. „Hverjum og einum var skipaður verjandi og það er því einn á mann,“ segir Ingibjörg.

Hún segir alls kostar óvíst að sama staða verði uppi á teningnum þegar kemur að aðalmeðferð. Þannig gæti legið fyrir játning eftir morgundaginn, eða játning á atvikum en ekki heimfærsla undir refsiákvæði. „Þetta kemur ekki í ljós fyrr en málið fer af stað. Þetta er bara fyrsti snertiflötur við dómskerfið,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir
Ingibjörg Þorsteinsdóttir mbl.is/Hari

Ólík aðkoma að málinu 

Í ákæru eru ellefu sakborningar sagðir hafa ruðst grímuklæddir inn á Bankastræti Club og veist þar að þremur mönnum. Einn hinna ákærðu er sagður hafa stungið mennina þrjá með hníf en sá hefur verið í gæsluvarðhaldi. Er hann ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Hinum tíu er gert að hafa ráðist að þremenningunum með hnefahöggum og spörkum og einn þeirra er sagður hafa notað kylfu í árásinni.

Fjórtán til viðbótar eru ákærðir fyrir hlutdeild í árásinni með því að hafa ruðst grímuklædd­ir inn á skemmtistaðinn, verið inn í húsnæðinu á meðan árásinni stóð og verið þannig ógnun við mennina þrjá. Þannig hafi þeir veitt árásarmönnunum liðsinni í verki.

Mennirnir þrír sem ráðist var á krefjast þess að hópurinn verði dæmdur til að greiða þeim samtals 15 milljónir í bætur.

mbl.is