Andlát: Kjartan Sigurjónsson

Kjartan Sigurjónsson, kennari og orgelleikari.
Kjartan Sigurjónsson, kennari og orgelleikari. Ljósmynd/Aðsend

Kjartan Sigurjónsson, kennari og orgelleikari, lést á Landspítalanum 15. mars síðastliðinn, 83 ára að aldri.

Kjartan fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1940. Foreldrar hans voru Sigurjón Árni Sigurðsson, f. 1.8. 1916, d. 28.8. 1982, og Bryndís Bogadóttir f. 21.1. 1919, d. 15.9. 1978. Hann var elstur fjögurra systkina. Kjartan lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti í Reykjavík 1956 og kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1962. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og var í orgelnámi hjá Páli Ísólfssyni 1959-1964.

Kjartan var kennari við Barnaskóla Kópavogs 1963-1966, og svo við Héraðsskólann í Reykholti frá 1966-1975. Kjartan varð skólastjóri Gagnfræðaskóla Ísafjarðar 1975 og gegndi því starfi næsta áratuginn. Eftir það kenndi hann í Austurbæjarskólanum í Reykjavík frá 1987-2000. Sumrin 1968-1977 starfaði Kjartan sem leiðsögumaður hjá Ferðaskrifstofu ríkisins.

Meðfram kennslustörfum var Kjartan organisti við Kristskirkju í Reykjavík 1958-1966, Kirkju óháða safnaðarins 1963-1966, Reykholtskirkju 1970-1975, Ísafjarðarkirkju 1977-1985, Kópavogskirkju 1985-1987, Seljakirkju í Reykjavík frá 1987-1997 og Digraneskirkju í Kópavogi frá 1997-2010. Hann var söngstjóri Reykdælakórsins í Borgarfirði 1968-1973, Sunnukórsins á Ísafirði 1976-1978, Karlakórsins Ernis á Ísafirði 1980-1985 og Karlakórsins Þrasta 1985-1990. Hann var formaður Félags íslenskra organista frá 1990-2004 og var kjörinn heiðursfélagi þess þegar hann lét af formennsku. Kjartan átti einnig sæti í Norræna kirkjutónlistarráðinu og var forseti þess frá 1990-1992 og aftur frá 2008-2012.

Kjartan hafði mikinn áhuga á hestamennsku, og sinnti því áhugamáli sínu nær óslitið frá 1967 fram til páska 2022. Þá var hann virkur í Rótarý og í Oddfellow-reglunni.

Kjartan átti Kristínu Maríu, f. 21.1. 1961, með Sigríði Vilhjálmsdóttur (f. 1941, d. 2013). Kjartan kvæntist Bergljótu Svanhildi Sveinsdóttur 22. september 1962. Áttu þau saman þrjá syni, Svein, f. 10.3. 1963, Sigurjón, f. 20.9. 1968, og Sindra Pál, f. 19.3. 1975. Kjartan átti samtals tólf barnabörn og sjö barnabarnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert