Héraðssaksóknari óákveðinn í hryðjuverkamáli

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson.
Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðssaksóknari upplýsti um það í fyrirtöku í vopnalagahluta hryðjuverkamálsins svokallaða að enn væri óvíst hvort gefin verði út ný ákæra undir hryðjuverkalið málsins. 

Fram kom að niðurstaða um það hvort ný ákæra verði gefin út muni koma í ljós fyrir þingfestingu málsins 8. maí næstkomandi.

Lengi skal manninn reyna 

Eins og fram hefur komið hefur málinu tvívegis verið vísað frá í héraðsdómi og Landsrétti óskýrleika ákæru. Sakborningar málsins eru Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. 

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs segist eiga erfitt með að sjá það hvernig saksóknari ætlar að gefa út nýja ákæru. „Það væri með ólíkindum og ég sé ekki hvernig þeir eiga að fara að því að gefa út nýja ákæru en lengi skal manninn reyna,“ segir Sveinn Andri.  

Málið afar íþyngjandi 

Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður Ísidórs segir málið afar íþyngjandi fyrir umbjóðanda sinn Ísidór Nathansson. „Þetta er niðurstaðan á tveimur dómsstigum eftir mikla yfirlegu og ég tel því að þeir geti ekki útbúið ákæruna betur en var og þurfi að láta gott heita,“ segir Einar. 

„Ég mun upplýsa skjólstæðing minn um að þessi möguleiki sé enn til staðar og ég geri ráð fyrir því að því verði ekki tekið af léttúð og mun eflaust auka á vanlíðan,“ segir Einar. 

Báðir menn hafa játað á sig vopnalagahluta ákærunnar að mestu leyti. 

mbl.is