Með 13 rétta í annað skiptið á innan við ári

Leikur Manchester United og Fulham í ensku bikarkeppninni var á …
Leikur Manchester United og Fulham í ensku bikarkeppninni var á meðal leikja á sunnudagsseðlinum. Hér má sjá Bruno Fernandes, leikmann Manchester United, fagna marki sínu eftir vítaspyrnu. Höfðu þeir rauðklæddu betur í þessari viðureign og sigruðu 3-1. AFP/Paul ELLIS

Einn tippari úr Vestmannaeyjum var með alla 13 leikina rétta á sunnudagsseðlinum í getraunum helgarinnar. Fær hann 4,5 milljónir í sinn hlut, en sami spilari var einnig með alla 13 rétta á sunnudagsseðlinum fyrir tæpu ári síðan. Hlaut hann þá 12,8 milljónir í sinn hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskum getraunum.

Þá er jafnframt tekið fram að tipparinn hafi ekki notað stór kerfi í getspá sinni, heldur hafi hann verið með tvö merki á sex leiki og eitt merki á sjö leiki. Það gera samtals 64 raðir og er miðinn á rúmlega 800 krónur.

mbl.is