Þörf á þjónustumiðstöð svo fólk fari sér ekki að voða

Ekki er vitað hvort að flóðinu hafi verið hleypt af …
Ekki er vitað hvort að flóðinu hafi verið hleypt af stað af mannavöldum. mbl.is/Bjarni Helgason

Snjóflóð varð í Brimnesdal um helgina og voru tveir úr hóp ferðamanna sem lenti í flóðinu fluttir á slysadeild. Lögregluvarðstjóri á svæðinu segir ekki hægt að segja til um það hvort að flóðið hafi verið af mannavöldum eða ekki. Þá fjölgi fólki sem vilji fara á fjöll á svæðinu og þörf sé á frekari þjónustu og eftirliti.

Aðspurður hvort að lögreglan fái oft útköll vegna ferðamanna á svæðinu segir Sigurbjörn Þorgeirsson, varðstjóri lögreglunnar í Fjallabyggð, það vera að aukast.

„Tröllaskaginn er orðinn meira spennandi og þekktara svæði. Það er meiri aðsókn frá fólki sem er áhættusæknara, það vill komast í einhverjar [öfgakenndar] aðstæður og þetta svæði er alveg [fullkomið] fyrir það. Ég held þetta sé ekkert að fara að minnka, þetta er bara að fara að aukast hjá okkur, því miður, það lendir bara á fólkinu sem býr hérna og starfar í þessum geira,“ segir Sigurbjörn í samtali við mbl.is. 

Litlir hópar sem segist vera vanir

Hann segir ekki hægt að fylgjast með öllu fólkinu sem komi á svæðið en þeir sem séu helst að lenda í vandræðum séu minni hópar á bílaleigubílum.

„Fólk er stopp í bílaröðum hér í vegköntum á Tröllaskagasvæðinu þegar fer að líða á vorið. Það eru hópar sem eru bara að labba upp, ef þeir sjá fjall þá vilja þeir fara upp, stoppa og græja sig. Þeir segjast allir vera vanir en þeir greinilega eru bara ekki að meta hættuna rétt,“ segir Sigurbjörn.

Aðspurður hvort hann telji að þörf sé á frekari merkingum eða einhverju slíku vegna fjölda ferðamanna leggur hann til þjónustumiðstöð.

„Ég myndi halda að það væri þörf á einhverskonar þjónustumiðstöð sem tæki á móti öllum þessum ferðamönnum og veitti þeim upplýsingar, það er ekkert svoleiðis í boði í dag á svæðinu,“ segir Sigurbjörn. Hann bætir því við að með því mætti skrá niður ferðir fólks á svæðinu og leiðbeina því hvert væri óhætt að fara á hverjum degi.

Ekki veður til göngu um helgina

Mikilvægt sé að fólk fylgist vel með aðstæðum á svæðinu en hópurinn sem lenti í snjóflóðinu um helgina hafi sagst vera vanur. Þau hafi verið með ýmiskonar búnað fyrir ferðina. Það hafi þó ekki verið ferðaveður á svæðinu.

Sveinbjörn segir ekki alveg vitað hvort að flóðið hafi farið af stað af mannavöldum. Flóð fari bara niður þegar svæði sé ótryggt.

„Þau voru einmitt að grafa einhverjar holur þarna og ætluðu að kanna snjóalög þegar þau fengu þetta á sig.“ Vissulega eigi fólk að fylgjast með fyrirmælum frá yfirvöldum en ekkert ferðaveður hafi verið á laugardag.

„Það var ekkert skyggni, það var búin að vera mikil úrkoma og kominn mjög mikill snjór á stuttum tíma og undirlagið var bara svell og þetta var ótryggt. Það voru allir hissa á því að fólk væri að þvælast á fjöll,“ segir Sigurbjörn.

mbl.is