Allir í næsta holli neituðu sök

Elimar Hauksson lögmaður ásamt skjólstæðingi sínum.
Elimar Hauksson lögmaður ásamt skjólstæðingi sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir fimm sakborningar í öðru holli í Bankastræti Club málinu neita sök. Er hópurinn hluti þeirra 11 sem ákærðir eru fyrir alvarlega líkamsárás. Málið er tekið til þingfestingar í dag en 25 sakborningar í heild munu taka afstöðu til sakargifta. Þegar hafa sex svarað til um sekt eða sök í morgun.

Lögmenn voru beðnir um að skila greinagerð 19. júní næstkomandi og er það lengsti mögulegi frestur til skila á greinagerð. Lögmenn furðuðu sig á því hví svo langur tími væri gefinn til að skila greinagerð. Um er að ræða viðmiðunardagsetningu og sagði dómari að fundað yrði fljótlega um staðfesta dagsetningu. Dómari svaraði því til að um óvenjulegt mál væri að ræða vegna fjölmennis sakborninga og því fresturinn gefinn.

Ljóst er að réttinum er vandi á höndum þar sem enn sem komið er hefur enginn skýlaust játað á sig verknaðinn. Því óljóst hvernig aðalmeðferð verður háttað. Sakborningar verða að lágmarki 11 og enn eiga 14 eftir að taka afstöðu til sakargifta. Þeir eru ákærðir fyr­ir hlut­deild í árás­inni með því að hafa ruðst grímu­klædd­ir inn á skemmti­staðinn, verið inn í hús­næðinu á meðan árás­inni stóð og verið þannig ógn­un við fórnarlömbin þrjú.

Á ekki von á auknu flækjustigi 

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari, á ekki von á því að fjöldi sakborninga muni auka flækjustig í málinu hvað sókn varðar þar sem verknaðarlýsing hvers og eins liggi fyrir í ákæru. „Ég tel að það verði ekki vandamál,“ segir Dagmar. „Aðalmeðferð hefur ekki farið fram en vissulega er myndskeið af atvikinu,“ bætti hún við.

Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi ásamt einum sakborningi í málinu.
Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi ásamt einum sakborningi í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is