Ekki liggur fyrir hvað verður um íbúana

Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.
Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri. Ljósmynd/Akureyrarbær

Ekki liggur enn fyrir hvað verður um hluta íbúa dvalarheimilisins Hlíðar á Akureyri, eftir að ný úttekt sýndi fram á verra ástand húsnæðisins en áður var talið. Heilsuvernd, sem rekur heimilið, kallar eftir skýrari svörum frá heilbrigðisráðherra.

Fyrirséð er að öllum 30 rýmunum í álmu 3 á dvalarheimilinu verði lokað, en þegar hefur 14 rýmum verið lokað. Þar að auki er lagt til að rými dagþjálfunar, sem 100 einstaklingar sækja daglega, verði einnig lokað.

„Við reiknum með að þurfa að loka fleiri rýmum, vegna myglu í þaki,“ segir Þóra Sif Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, í samtali við mbl.is.

Einingarhús ein hugmynd

Aðspurð segir hún ekki liggja fyrir hvað verði um þá íbúa sem dvelja í umræddum rýmum, eða hvernig dagþjálfun verði háttað. Segir hún bæði ráðuneytið og Akureyrarbæ hafi tekið vel í hugmyndir Heilsuverndar um að reisa einingarhús til að færa rýmin í.

„Þeir aðilar sýna allir stöðunni skilning, og eru meðvitaðir um stöðuna á húsnæðinu, en okkur er farið að lengja eftir svörum. Við viljum fá tímasettari aðgerðaráætlun í þessu.“

Varðandi dagþjálfunina sem lagt er til að verði lokað, kveðst hún vilja hætta dagþjálfun meðan rýmið er lagað.

„Við viljum allra síst fara þá leið að vera ekki með neina dagþjálfun, en við þurfum að hjálpast að við að finna nýtt húsnæði fyrir dagþjálfun. Við getum ekki boðið fólki upp á það að vera í heilsuspillandi umhverfi.“

mbl.is