Ekki útlit fyrir nein hlýindi á næstunni

Gular veðurviðvaranir vegna vinds og hríðar eru í gildi víða …
Gular veðurviðvaranir vegna vinds og hríðar eru í gildi víða um land. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allmikið og -djúpt lægðasvæði suður af landinu veldur hvössum austanvindum, jafnvel stormi eða roki syðst. Áfram er frost víða á landinu og ekki útlit fyrir neinum hlýindum á næstunni.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Þar segir að í dag verði snjókoma með köflum eða skafrenningur á sunnanverðu landinu og því getur færðin spillst með skömmum fyrirvara.

Þá er dálítil él í öðrum landshlutum, en yfirleitt úrkomulaust á Vesturlandi og dregur úr frostinu.

Gular veðurviðvaranir vegna vinds og hríðar eru í gildi víða um land og eru ferðamenn og aðrir vegfarendur beðnir um að kynna sér vel veðurspá og færð áður en lagt er af stað.

Í kvöld fer að rofa til syðra, en áfram hvassviðri eða stormur syðst í nótt og fram á morgundaginn.

Norðaustankaldi eða -strekkingur og víða dálítil él seinnipartinn á morgun, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. 

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is